Fara í efni

Um Prófessor, Kárahnjúkajöfnuna og sofandi fréttamenn

Sæll Ögmundur.
Mér fannst mjög skrítið í fyrrakvöld að hlusta á Prófessorinn, fulltrúa ríkisins  í sérfræðinganefndinni sem falið var að fara yfir Kárahnjúkajöfnuna sem Landsvirkjun setti upp með þeim breytum sem þeim þóknaðist. Prófessorinn gaf Landsvirkjunarmönnum vottorð um að þeir kynnu að reikna og þá væri allt í lagi. Forsendur útreikningsins væru ekkert sem ástæða væri til að leggja mat á. Fræðingunum tókst að gefa hvor öðrum vottorð um að þeir kynnu að reikna. Eftir það fannst þeim björninn unnin. En að leggja mat á grunnforsendurnar var sérfræðinganefndinni ofviða. En um þetta hlýtur málið engu að síður að snúast. Fréttamennirnir voru viðræðugóðir, tóku sig vel út í Kastljóssettinu og báru ekki upp eina einustu gagnrýna spurningu frekar en venjulega. Ögmundur, er hægt að bjóða þjóðinni upp á þetta, eiga fréttamenn ekki að að kafa sjálfir ofan í hlutina og bera upp við viðmælendur sína þau álitamál sem upp koma meðal þings og þjóðar.

Ögmundur getur þú nokkuð beitt þér fyrir því við útvarpsráð að tekin verði upp gagnrýnni þjóðfélagsumræða hjá Ríkisútvarpinu. Þetta er ekki hægt eins og þetta er núna. Einu má bæta við í þessu sambandi. Ég las grein þína hér á síðunni frá 27/12 um óvissuþætti varðandi  Kárahnjúkagöngin og áskorun til fjölmiðla að skoða reynslu Dana á þessu sviði. Viðbrögðin eru engin. Er þetta lið sofandi?
Bjarni 

 Komdu sæll Bjarni og þakka þér bréfið. Það er rétt hjá þér að mikið skortir á gagnrýna umræðu í fjölmiðlum þótt ekki vilji ég alhæfa um alla fréttamenn hvað það snertir. Það sem mér fannst undarlegast við umfjöllun um þessa skýrslu var að lítið sem ekkert hefur verið bent á að niðurstöður skýrslunnar eru ekki að öllu leyti í samræmi við innihaldið. Þannig kemur fram í skýrslunni að lítið sem ekkert má út af bera til þess að framkvæmdin sé komin í dúndrandi tap. Ég hélt að markmiðið með þessari skýrslu væri að leggja áherslu á einmitt þessa þætti. Svo er náttúrlega hin hliðin á áhættunni sem lítið sem ekkert er rætt um í opinberri umræðu um áhættuþætti og það er sjálft fyrirtækið Alcoa. Ef það nú fer á hausinn – hvað þá? Hefði einhverjum dottið í hug fyrir fáeinum árum að Pan American myndi fara á hausinn? Ef Alcoa yrði gjaldþrota þá kæmi til sögunnar það sem Jón Sigurðssson fyrrverandi forstjóri Járnblendifélagsins einhvern tímann kallaði hræætu. Hræætur munu ekki vera neitt sérstaklega auðveldar viðfangs við samningsborðið.

Að lokum varðandi spurningu þína um Útvarpsráð þá fyndist mér æskilegt að þaðan kæmi reglulega hvatning til fréttamanna að standa sig í stykkinu með fyrirheiti um að þeir yrðu aldrei látnir gjalda gagnrýninna, faglegra vinnubragða. Ella yrði Útvarpsráði að mæta!! Því miður held ég að þörf sé á hugarfarsbreytingu hjá sumum fulltrúum í Útvarpsráði áður en þetta gerðist. En ábendingar af því tagi sem þú kemur með eru til góðs og líklegar til að þoka okkur fram á við.

Með kveðju, Ögmundur