Sveik hún?

Kastljós ríkissjónvarpsins kynnti fyrir helgina Siv Friðleifsdóttur umhverfisráðherra með kostulegum hætti. Ekki veit ég hvort þú sást þáttinn Ögmundur en hann var að mörgu leyti merkilegur af því þar sá maður glitta í innyflin á umhverfisráðherra sem er dottin út af þingi ef marka má skoðanakannanir. Fyrir utan að undirstrika með framkomu sinni og yfirlýsingum að mannseskjan er laus við jarðsamband þá tjáði hún sig um fráfarandi borgarstjóra. Hafi ég tekið rétt eftir þá sagði umhverfisráðherrann orðrétt að Ingibjörg Sólrún hefði "svikið okkur - ég kalla þetta svik við okkur". Finnst þér Ingibjörg Sólrún hafa svikið Vinstri hreyfinguna - grænt framboð. VG hafa einhvern veginn leitt þessa spurningu hjá sér. Svar óskast.
Hafsteinn 

Sæll Hafsteinn.
Þú ert glöggur að sjá að mörg okkar vilja leiða þetta svikabrigsla-tal hjá okkur. Staðreyndin er vissulega sú að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri lýsti því afdráttarlaust yfir fyrir borgarstjórnarkosningarnar að hún ætlaði ekki að bjóða sig fram til Alþingis í vor. Við þessa yfirlýsingu stendur hún ekki. Hún er þannig að ganga á bak orða sinna. Það er mál sem hún hlýtur að eiga við  sína samvisku og að sjálfsögðu einnig við kjósendur og hverja þá sem hún ræddi þessi mál við á sínum tíma. Það sem valdið hefði mér mestum áhyggjum er ef R-listanum hefði verið sundrað vegna þess að borgarstjóri stóð ekki við þessar yfirlýsingar sínar. Þá fyrst hefði málið að mínu mati orðið verulega alvalregt og þá hefði mér fundist tímabært að við færum öll að tala um svik. Hvers vegna? Vegna þess að við sem stóðum að R-listaframboðinu hétum kjósendum því að vinna að umbótum í húsnæðismálum, bættri þjónustu við aldraða, barnafólk, að framförum í umhverfismálum svo nokkrir mjög veigamiklir þættir séu taldir. Ef við ekki stöndum við þau fyrirheit sem við gáfum borgarbúum um að vinna af alefli og fremsta megni að þessum málum á kjörtímabilinu þá væri vissulega ástæða til að tala um svik. Þess vegna á að mínum dómi að einblína á málefnin og láta ekki mannlegan breyskleika villa okkur sýn og leiða okkur af braut.
Með kveðja,Ögmundur

 

 

 

Fréttabréf