Stríð og friður
Sæll Ögmundur.
Ef mynduð verður vinstristjórn eftir næstu kosningar, myndi VG
halda uppi mótmælum gegn stríðsáformum Vesturlanda, og mynduð þið
getað starfað í ríkisstjórn sem styddi stríð úti í heimi?
Héðinn Björnsson
Sæll Héðinn.
VG myndi tvímælalaust halda uppi mótmælum gegn stríðsáformum
Vesturlanda og ættum við þar samleið með þorrra fólks á
Vesturlöndum. Það er athyglisvert að í Evrópu sérstaklega er mjög
almenn andstaða hjá almenningi gegn stríðsæsingum ráðamanna. Þú
spyrð hvort við gætum starfað innan ríkisstjórnar sem styddi stríð
úti í heimi. Ekki treysti ég mér til að gefa alhæfingarformúlu um
hvar við kæmum til með að draga línurnar hvað þetta varðar en hitt
er víst að við myndum beita okkur af alefli fyrir okkar
sjónarmiðum. Við myndum ekki láta sitja við það eitt að andæfa gegn
stríði og hvers kyns ofbeldi og yfirgangi. Við myndum að sjálfsögðu
vilja að Íslendingar beittu áhrifamætti sínum á erlndum vettvangi
til að stuðla að réttlátari heimi en með því móti legðum við okkar
á vogarskálar friðsamlegrar sambúðar í heiminum.
Í þessu sambandi langar mig til að snúa yfir á íslensku nokkrum
línum úr nýútgefinni bók eftir William Blum sem ágætur félagi minn
sendi mér. Bókin heitir "Rogue State" eða "Fanta-Ríkið" (og er þar
ekki átt við Írak). : "Væri ég forseti myndi mér takast á fáeinum
dögum að stöðva allar hryðjuverkaárásir og það í eitt skipti
fyrir öll. Ég myndi fyrst biðjast afsökunar. Ég myndi beina
afsökunarbeiðni minni til ekkna, munaðarleysingja, allra þeirra sem
rúnir hafa verið eigum sínum eða orðið fórnarlömb bandarískrar
heimsvaldastefnu. Síðan myndi ég í fullri einlægni lýsa því yfir -
og láta orð mín berast til allra heimshorna - að íhlutun
Bandaríkjanna á heimsvísu væri lokið. ... Síðan myndi ég draga úr
hernaðarútgjöldum um 90% og nota það fé sem þannig sparaðist til að
greiða fórnarlömbum skaðabætur. Það fé myndi duga vel. Eins árs
hernaðarútgjöld sem nema 330 milljörðum dollara samsvara 18 þúsund
dollurum á hverja einustu klukkustund sem liðin er allar götur frá
dögum Jesú Krists ... Þessar ákvarðanir myndi ég taka fyrstu þrjá
daga mína sem forseti. Fjórða daginn yrði ég ráðinn af
dögum."
Ekki efa ég að einhverjir vildu ráða slíkan forseta af dögum en
hitt er víst að næði sú stefnubreyting sem þarna er boðuð fram að
ganga yrði heimurinn friðvænlegri.
Kveðja, Ögmundur