Sauðafréttagærur

Álitsgjafar og fréttamenn hafa gert sér far um að upphefja Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fráfarandi borgarstjóra Reykjavíkur, sem kosin var sem frambjóðandi Framsóknarflokksins, óháðra, Samfylkingingarinnar og Vinstri grænna í fyrra á kostnað Össurar Skarphéðissonar, formanns Samfylkingarinnar. Menn líkja Össuri við óþekktari þingmenn flokksins og láta með því skína í meintan vanmátt hans á formannsstóli og menn ræða á grundvelli "traustra heimilda" að nú standi til að aftursætisbílstjórinn Ingibjörg Sólrún taki yfir veigamikla þætti formannsstarfsins. Það er öllum heimilt af hafa skoðun á Össurri Skarphéðinssyni og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, en það er ekki stórmannlegt að sækja að þeim fyrrnefnda í sakleysislegri sauðafréttagæru. Hafi menn þörf fyrir að segja álit sitt á Össurri, eða Ingibjörgu Sólrúnu, eiga menn að gera það hreint út.
Kveðja, Ólína

Komdu sæl Ólína.
Ég kann vel að meta að þú skulir aftur skrifa á heimasíðuna. Ég tek hjartanlega undir með þér að þessi leið til að knýja fram niðurstöður með lekum í fjölmiðla og skipulagðri "hönnun atburðarásar" eru ekki vinnubrögð að mínu skapi. Þeir sem vinna á þennan hátt ættu að hafa hugrekki til þess að viðra hugmyndir sínar undir nafni, þ.e.a.s. ef þeir á annað borð vilja koma þeim í almenna þjóðfélagsumræðu. Fréttamenn eiga líka að gæta sín á því að gerast ekki málpípur þeirra sem vilja stýra atburðarás úr undirdjúpunum á óheiðarlegan hátt. Sannast sagna finnst mér nokkuð til um æðruleysi Össurar Skarphéðinssonar við vægast sagt erfiðar aðstæður. Þar vísa ég í hina mannlegu úlfakreppu sem verið er að reyna að koma honum í. Það er engu líkara en bundist hafi verið samtökum um að gefa út skotleyfi á Össur og gildir það um marga fréttamenn og einnig samflokksmenn hans. Fréttamenn spyrja hann án afláts hvort hann láti sig "nokkuð" dreyma um að verða forsætisráðherra og hvort nú sé ekki komin upp sú staða að hann víki af formannsstóli. Í þessum leik taka margir "félagar" hans í Samfylkingunni þátt eins og strengjabrúður. Einhver hefði við þessar aðstæður leyft sér að minna á að margrómuð uppsveifla Samfylkingarinnar hafi hafist nokkru áður en sjónir manna beindust að Ráðhúsi Reykjavíkurborgar. Þetta er sannleikur málsins en hann er hins vegar ekki í samræmi við hinar fyrirframgefnu niðurstöður og þess vegna þagaður í hel.

En þótt hamast sé á persónum manna - sumra - á þennan hátt eru þeir látnir komst átölulaust upp með að vaða pólitískan moðreyk. Ég sakna þess til dæmis að Össur og Samfylkingin séu látin skýra fyrir okkur í hverju jafnaðarstefna þeirra felist því ég fæ ekki betur séð en þau skrifi upp á nánast öll umdeildustu verk ríkisstjórnarinnar, Kárahnjúkaóhæfuna, einkavæðinguna (hún er framkvæmd undir húrrahrópum Össurar og félaga) og ekki fer mikið fyrir því að Samfylkingin sýni sjálfstæða tilburði í utanríkismálum að undanskildum málefnum Palestínumanna.  Þá fer lítið fyrir því að fréttaskýrendur bendi á hve hratt Samfylkingin færir sig til hægri á stjórnmálasviðinu. Erfitt er þó að átta sig á hvað hún raunverulega vill. Þessa stundina er helst svo að skilja að hún vilji mynda ríkisstjórn með Framsókn. Á síðum dagblaða og í fréttatímum daðrar Össur Skarphéðinsson aftur og ítrekað við Framsóknarflokkinn en sniðgengur jafnan eina flokkinn sem ótrauður heldur uppi baráttumerkjum velferðarsamfélags. Ég hef þá kenningu að hægri-hentistefna Samfylkingarinnar sé farin að grafa innan úr samvisku hennar. Á þessa staðreynd er Samfylkingin jafnan minnt þegar henni verður litið til Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Það þykir óþægilegt. Þess vegna vill Samfylkingin ekkert af þeim flokki vita.

Eitt er rétt að hafa hugfast. Það eru rúmlega fjórir mánuðir til kosninga. Margt á eftir að gerast á þeim tíma. Vonandi verður rætt um pólitík  - um málefni - á þeim tíma sem í hönd fer. Í þeirri umræðu hefur VG allt að vinna og ekkert að óttast. Nema ef svo skyldi fara að fréttamennirnir kæmu jafnan fram á sauðafréttagærunni. Þarna erum við sammála Ólína. Henni verða þeir að afklæðast. Það er mikið hagsmunamál fyrir kjósendur að fréttamenn láti ekki stjórnast af siglingafræðingum hinna pólitísku undirdjúpa.
Kveðja,Ögmundur

Fréttabréf