Samfylkingin samfagnar Samsonum

Blessaður Ögmundur.
Mér ofbauð að heyra afstöðu varaformanns Samfylkingarinnar Margrétar Frímannsdóttur í Kastljósþætti Sjónvarpsins í gær til sölu Landsbankans. Henni fannst þetta greinilega vera hið besta mál og ekkert við þessa einkavæðingu að athuga. Þetta er stórundarleg afstaða því komið hefur í ljós svo ekki verður um villst að almenningur hefur verið gróflega hlunnfarinn við þessa sölu. Það hefur þú m.a. sýnt fram á í blaðagreinum og á þetta bentir þú einnig í þættinum í gær. Þessi afstöðumunur VG og Samfylkingarinnar er athyglisverður og hefur hann áður komið fram opinberlega. Á sama tíma og Steingrímur J. Sigfússon taldi rétt að opinber rannsókn færi fram á söluferlinu öllu sá Össur Skarphéðinsson sérstaka ástæðu til að fagna niðurstöðu málsins. Ég spyr, fyrir hverja er Samfylkingin eiginlega að vinna? Er þetta partur af hinni nútímalegu jafnaðarmennsku? Ef svo er nægir hann til þess að ég gef minna en ekkert fyrir þá samsuðu.

Kveðja, Anna Björnsdóttir

 

Komdu sæl Anna.

Ég tek undir með þér að afstaða Samfylkingarinnar í þessu máli er nokkuð sérkennileg. En við skulum ekki gleyma því að Samfylkingin hefur löngum verið léttdaðrandi við einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar og stundum beinlínis tekið undir með henni. Nýjasta dæmið er þegar ríkisstjórnin opnaði fyrir hlutafélagavæðingu Norðurorku rétt fyrir jól. Lærdómurinn sem við getum dregið af þessu er sá að það er deginum ljósara að ríkisstjórn án aðhalds frá sterkri Vinstrihreyfingu grænu framboði myndi áfram dansa einkavæðingarvalsinn.

Kveðja, Ögmundur

Fréttabréf