Rótlaus - í leit að sjálfsmynd
Þegar forsetinn talar þá hlustum við. Þannig er það og þannig á
það að vera. Og þegar forsetinn fjallar um mál sem hann ætti,
menntunar vegna og fyrri starfa, að geta boðið upp á skýr svör
og hnífskarpa greiningu þá ber okkur þegnunum að leggja við
hlustir því hér talar maður sem vill veita leiðsögn. Hann fjallaði
um fátæktina forsetinn. Það er tímabær umræða og brýn. Hann
fjallaði um samfélagsmál forsetinn, poppmenninguna og ræturnar sem
sauðsvartur almúginn er búinn að höggva á. Hann fjallaði um þær
rætur forsetinn sem nýríkum bissnessmönnum tókst að sameina
alþjóðlegum markmiðum sínum: "Athafnasemi unga fólksins,
árangur þess í menningu og listum, viðskiptum og atvinnulífi eru
vissulega sönnun þess að hægt er að vera í fremstu röð á heimsvísu
en varðveita um leið íslenskar rætur, að reynslan sem fæst hér á
heimaslóð getur verið undirstaða verulegs árangurs annars staðar í
veröldinni." (Forseti Íslands 1. janúar 2003). Sönnun þess að
hægt er að vera í fremstu röð á heimsvísu en varðveita um leið
íslenskar rætur, sagði forsetinn. Og hann fjallaði um vanda þeirra
fátæku Íslendinga sem fjölgar á meðan ungu bissnessmennirnir sækja
fram á erlendum vettvangi. Hann fjallaði um fátæktina forsetinn, en
ekki hina háu vexti sem eru að sliga fjölskyldurnar. Hann fjallaði
um fátæktina, en ekki lækkandi framlög til velferðamála forsetinn.
Ekki sífellt lækkandi skatta á fyrirtækin, ekki vaxandi fjölda
einkahlutafélaga, ekki einkavæðingu óveidds fiskafla í hafinu, ekki
einkavæðingu lands og lausra eigna íslensk almennings. Hann gerði
enga tilraun til að benda á samband þess veruleika, þeirra
leikreglna sem stjórnvöld hafa verið að skapa á Íslandi og
fátæktarinnar sem hann hafði áhyggjur af. Hann gerði heldur enga
tilraun til þess forsetinn að draga fram afleiðingarnar sem
fákeppnisverslun getur haft fyrir almenning. Eða að svara
spurningunni af hverju menn kjósa að setja niður lyfjaverksmiðjur
þar sem fátæktin er svo mikil að yfirstéttin þarf að ferðast í
brynvörðum bifreiðum til að vera örugg með sig. Hann gerði heldur
enga tilraun til þess forsetinn að reyna að varpa ljósi á neikvæða
ávöxtun sjóða og lífeyrissjóða almennings í verkalýðshreyfingunni
og hagnaðarins sem verður til í ávöxtunarfyrirtækjum sem hafa það
hlutverk að flytja fé frá púnkti A til púnktar B. Af hverju eru
rætunar að trosna upp og bresta? Af hverju er úthverfakúltúrinn það
sem koma skal? Af hverju flyst fólk af landsbyggðinni sem forsetinn
hefur verið svo iðinn við að sækja heim? Hefur hann ekki spurt?
Hafa menn ekki verið að proletarísera landsbyggðina með frjálsa
framsalinu í fiskveiðistjórnarkerfinu? "Aldrei fyrr hafa
Íslendingar haft jafnmikla fjármuni milli handa. Tækifærin til
góðra verka eru fleiri en nokkru sinni í sögu þjóðar. Það er því
óneitanlega þversögn að einmitt í slíkri gósentíð skuli fátækt
aukast ár frá ári." Þetta er úr upphafsorðum forsetans. Sér
hann ekkert samband milli fátæktarinnar og hærri vaxta, lægri
skattheimtu fyrirtækja á Íslandi en annars staðar, einkavæðingu
almannaeigna fyrir smotterí og fátæktarvæðingu landsbyggðarinnar?
Svarið er greinilega nei. Ekkert kemur fram í áramótaávarpinu, sem
tengir saman hagsæld hinna ríku og skort þeirra sem minna hafa. Það
gengur ekki að kvarta yfir fátæktinni, sem íslenska afbrigðið af
kapítalismanum fæðir af sér og mæra um leið þá sérstaklega sem
kynda ofna þessa sama kapítalisma: "Það er gæfa fyrir fámenna
þjóð sem um aldir var fátæk og þurfti að sækja sér sjálfstæði með
einarðri baráttu í hundrað ár, að sjá skýr merki þess á okkar tíð
að nýjar kynslóðir ætla sér að sameina heimssýn og íslenskar
rætur." Það er ekki víst að fátækt fólk sjái mikla gæfu í þeim
einstaklingum í nýrri kynslóð sem forsetinn virðist hafa fallið
fyrir, enda er sárustu fátæktina sennilega að finna meðal
ungmennanna sem forsetinn virðist vera að tala um. Verðum við ekki
að gera strangar kröfur um vísindalega hugsun og nákvæma
samfélagslega greiningu þegar sérfræðimenntaðir menn ræða fátækt.
Hún verður ekki afgreidd sem einföld þversögn, eða tilviljun. Hún
er afleiðing af mannanna verkum - forseti góður.
Ólína