Össur í Búlgaríu og Björgúlfarnir líka

Sæll Ögmundur.
"Aftur sækir hor í nös" segir máltækið og á það vel við um formann Samfylkingarinnar þessa dagana. Í útvarpinu í gærkveldi (2. jan.) átti hann vart orð til að lýsa ánægju sinni yfir sölu Landsbankans og í morgusárið var hann aftur mættur í stúdíóið til að mæra vini sína, Björgúlfana. Lá nú leiðin alla leið til Búlgaríu - þangað sem Íslendingar fóru forðum til að kaupa sér falskar tennur á spottprís. En útrás landsmanna tengist ekki lengur slíku húmbúkki. Björgúlfarnir hafa nýverið keypt þar miklar lyfjafabrikkur og Össuri sýnist að nú verði vinunum leiðin greið í fjármálalífinu þar í landi. Yfirtakan á Landsbankanum er bara forleikurinn að mati formanns Samfylkingarinnar. Innan skamms munu þeir kaupa búlgarska bankakerfið.

Gott og vel, eflaust munu Björgúlfarnir hafa eitthvað upp úr krafsinu en er eins víst að það muni koma búlgörskum og íslenskum almenningi til góða?

Með kveðju, Kristinn

Fréttabréf