Hvernig ríkisstjórn?

Sæll Ögmundur.
Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Dagblaðsins eru þrjú stjórnarmynstur helst inn í myndinni: Samstjórn Samfylkingar og Framsóknarflokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks og loks áframhaldandi samstarf núverandi ríkisstjórnarflokka. Nú þekkjum við stefnu og starf núverandi ríkisstjórnar en hvað um hina kostina tvo: eru þeir líklegir til að bjóða upp á verulegar breytingar í landsstjórninni?
MBK, Þorsteinn 

Komdu sæll Þorsteinn.
Þetta er vissulega umhugsunarverð spurning. Sannast sagna held ég að þeir ríkisstjórnarkostir sem þú nefnir myndu ekki hafa í för með sér grundvallarbreytingar í för með sér við landsstjórnina. Bæði samfylkingarmenn (Alþýðuflokkshlutinn) og framsóknarmenn hafa verið í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn frá byrjun tíunda áratugarins og fram á þennan dag og tekið þátt í að umturna þjóðfélaginu í þágu peningaaflanna. Hvorki yrði lát á þeirri stefnu í samsteypustjórnum þessara flokka með sjálfstæðismönnum né hef ég trú á því að áherslurnar yrðu mjög breyttar í samsteypustjórn Framsóknar og Samfylkingar. VG myndi hins vegar framkalla það besta í þessum flokkum: hinn félagslega þráð. Það er með öðrum orðum mín sannfæring að hér verði ekki mynduð velferðarstjórn sem risi undir nafni án þátttöku Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Þetta ættu kjósendur að hafa í huga og þá einnig hitt að slík stjórn yrði ekki mynduð án þess að VG fengi góða kosningu.
Kveðja, Ögmundur

 

Fréttabréf