Er verið að öryrkjavæða Ísland?

Ágæti Ögmundur.
Dálítið sérkennileg umræða hefur farið fram um málefni öryrkja í fjölmiðlum að undanförnu. Í Fréttablaðinu 11. des. s.l. segir að fjöldi örorkulífeyrisþega hafi tvöfaldast á tíu árum. Blaðamaðurinn telur líklegast að þessa þróum megi rekja til lækna - þeir hafi einfaldlega skipt út viðmiðunum sínum. Þá segir hann að það sé alls ekki hlutverk læknisfræðinnar að skilgreina heilbrigði. Það sé hlutverk almennings. Ef læknisfræðin eigi að skilgreina heilbrigði endi það með því að allir verði taldir sjúkir.
Ekki get ég skrifað upp á þessar skoðanir en hvaða skýringar eru á því að öryrkjum hefur fjölgað svo mjög? Mér dettur ýmislegt í hug. Fyrst má nefna vaxandi misskiptingu í þjóðfélaginu. Þeir fátæku hafa orðið fátækari, hinir ríku ríkari. Fleiri en áður hafi hreinlega bugast undan afleitum lífskjörum og orðið óvinnufærir. Þá dettur mér í hug óvinveittari vinnumarkaður, með vaxandi samkeppni á milli starfsfólks á vinnustöðum hafi hinir "veikari" heltst úr lestinni. Loks er mér kunnugt um það að fleira ungt fólk á nú við geðræn vandamál að etja en áður, m.a. vegna fíkniefnaneyslu. Í slíkum tilfellum eru úrræðin m.a. þau að gripið er til tímabundins örorkumats á meðan á endurhæfingu stendur. Þetta er það sem ég hef fram að færa. Ég trúi því ekki sem ýjað er að í Fréttablaðinu að ríkisvaldið og sérfræðingar standi sameiginlega að einhverri allsherjar "öryrkjavæðingu" hér á landi. Mér finnst þetta orðalag bera keim af nokkurri hótfyndni og ekki fram sett í réttu samhengi. Látum það vera. En ég get skilyrðislaust skrifað upp á það að ríkisvaldið hefur með frjálshyggjustefnu sinni stuðlað að fjölgun öryrkja. Og til þess hefur það að mínum dómi ekki þurft á mikilli utanaðkomandi aðstoð að halda.-
Kveðja, Sigríður Kolbrún Einarsdóttir

Heil og sæl Sigríður Kolbrún.
Það kann að vera eitthvað til í því sem sumir halda fram að það sé samfélagsins að skilgreina heilbrigði. Hugsanlega ganga læknar stundum nokkuð langt í því að þröngva sjúkdómum upp á okkur. Mér finnst auglýsingaherferðir sérfræðinga, kostaðar af fyrirtækjum, stundum hagsmunatengdum, vekja spurningar. Þegar atvinnuleysi var t.a.m. mikið á meðal byggingamanna fyrir fáeinum árum var mikið um áþekkar herferðir sem gengu út á að sannfæra okkur um að húsin okkar þyrftu að fara í allsherjar viðgerðir. Síðan lagaðist atvinnuástandið og þá virtist draga úr þessari þörf.
Ég held hins vegar að þú sért með hárréttar skýringar á fjölgun öryrkja. Aukin misskipting veldur því að fjöldi fólks er hreinlega troðinn undir og þannig er fólki beinlínis áskapað heilsuleysi. Það var mjög athyglisvert sem kom fram í erindi sem Lára Björnsdóttir félagsmálastjóri í Reykjavík flutti nýlega á ráðstefnu VG um velferðarmál - en það var að þeir sem búa við erfiðustu lífskjörin og eru að auki án stuðnings frá fjölskyldu eða nánum vinum, auðnast síður en öðrum að nýta sér þá þjónustu sem þó er í boði. Það er því verkefni okkar að stórefla velferðarkerfið - gera það um leið gegnsærra og einfaldara fyrir þá sem þurfa á þjónustu að halda - og ofar öllu öðru að draga úr misskiptingunni.
Kveðja, Ögmundur

Fréttabréf