Fara í efni

Vilja fá að vera með í stríði

Heill og sæll Ögmundur.
Nú berast fréttir af yfirvofandi stórauknum framlögum úr sameiginlegum sjóðum okkar Íslendinga til NATÓ. Virðist þar muna mestu um þann höfðingsskap háttvirtrar ríkisstjórnar að punga út 300 milljónum króna til loftflutninga við sérhvern þann hernað sem NATÓ vill leggjast í. Það vantar greinilega ekki peninga í ríkiskassann þegar göfug málefni eru annars vegar. Ég treysti því að þú og þínir flokksmenn beitið ykkur af alefli í þessu máli. Þjóðin á heimtingu á því að ráðamenn verði látnir svara undanbragðalaust fyrir gerðir sínar. Þá væri einnig fróðlegt að heyra eitthvað um afstöðu annarra stjórnandstöðuflokka en Vinstri grænna til vaxandi umsvifa Íslands í stríðsrekstri á hendur þeim ríkjum heims sem ekki eru þóknanleg Bandaríkjastjórn hverju sinni. Loks langar mig að spyrja: Fram kom í fréttum að ríkisstjórnin hafi samþykkt hin auknu hernaðarumsvif sín fyrir tveimur vikum. Er það virkilega svo að þessi ógeðfellda samþykkt stjórnarherranna hafi ekki komið til kasta Alþingis? Mér finnst það vægast sagt ósmekklegt ef það er hlutskipti þjóðkjörinna fulltrúa að fá sínar fyrstu fréttir af svona málum í fjölmiðlum.
Helga Þorsteinsdóttir

Komdu sæl Helga og þakka þér fyrir bréfið sem ég er hjartanlega sammála. Það er rétt að þegar Nató er annars vegar þá skortir ekki fjármuni. Þessi ákvörðun hefur ekki komið til kasta Alþingis og ég er sammála þér að málið er þess eðlis að það hefði að sjálfsögðu átt að kynna fyrst á þingi. En forsætisráðherra og utanríkisráðherra vilja vera miklir menn á stórfundum í útlöndum og virðast hirða minna um þótt þeir komi öllum á óvart heima fyrir. Ég held þeir misreikni sig þó hrapallega ef þeir halda að þeir afgreiði þjóðina á þennan hátt. Ég er sannfærður um að þetta mál á eftir að fá mikla umræðu. Í því efni mun ég ekki láta mitt eftir liggja.

Kveðja, Ögmundur