Fara í efni

FINGRALÖNGUM ALLIR VEGIR FÆRIR

Í byrjun vikunnar mátti hlýða á samtal í útvarpi milli alþingismannanna Jóns Gunnarssonar og Bergþórs Ólasonar, sem báðir eiga sæti í samgöngunefnd Alþingis, um framtíðarsýn þeirra í vegamálum. 


Þeim Jóni og Bergþóri var mikið niðri fyrir. Vandinn væri gríðarlegur að vöxtum! Ég saknaði þess að hinn ágæti spyrjandi reyndi að ná þeim félögum í jafnvægi í stað þess að kynda undir tali tilfinninganna.

“Hinn gríðarlegi vandi” er vel að merkja forskrift sem verktökum hefur tekist að festa í sessi í sölum Alþingis og hljómaði nú í ábúðarmiklu tali í fréttatíma Ríkisútvarpsins. Og ekki í fyrsta sinn.

Staðreyndin er að sjálfsögðu sú að vegakerfið okkar hefur jafnt og þétt tekið framförum og vissulega þarf að tryggja að svo verði áfram á markvissan hátt með útskotum á vegamótum, uppbyggingu 2X1 vega á hringveginum með forgang á tilteknar brautir, lagfæringu erfiðra vega í byggðum til sveita og svo framvegis. Til þessa eru nægir fjármunir nema menn vilji Houston hraðbrautir um íslenska náttúru. Eftir því myndu menn sjá síðar meir.

En mikið vill meira. Þess vegna er vandinn ýktur og étur þar hver upp eftir öðrum möntru verktakanna sem segja “hinn gríðarlega vanda” auðleystan.

Og þannig hljómaði það vissulega í eyrum þeirra sem hlýddu á skraf þeirra Jóns og Bergþórs eða þar til dulmálslykli var brugðið á umræðu þeirra.

Málið snerist um peninga sögðu alþingismennirnir. Þeirra mætti afla á sáraeinfaldan hátt:
a) með tilfærslu í eignarhaldi innviða.
b) með greiðsluþátttöku (svona eins og með fjármögnun Hvalfjarðarganga þar sem allt í einu urðu til göng bara rétt si svona).

Ef þetta er þýtt á mannamál var hér annars vegar verið að boða einkavæðingu arðvænlegra ríkiseigna (aðrar seljast ekki); í útvarpsumræðunni var einkavæðingin mestan part rædd á dulmáli (tilfærsla á eignarhaldi innviða) en þó nefnd sala á Leifsstöð sem álitlegur kostur. Það var þó gert nánast í framhjáhlaupi undir lok umræðunnar. Hin fjáröflunarleiðin var svo kostnaðarþátttaka vegfarenda, sem nánast hljómaði eins og skemmtilegur samkvæmisleikur þar sem allir fá að vera með og leggja af mörkum.

En svo því sé nú til haga haldið þá er Leifsstöð ein helsta gullgerðarvél Íslands nú um stundir, fullkomlega sjálfbær og miklu meira en það. Fjárfestar myndu gleypa hana samstundis með sælubros á vör. Áhuginn næði frá Wall Street til Kína að ógleymdum eigendum Kynnisferða. Flugstöðin yrði hins vegar ekki seld nema einu sinni vel að merkja.

Síðan er það skattheimtan. Viljum við auka hana á vegunum? Það held ég ekki. Athygli vekur að þingmennirnir töldu sig geta lofað upp í ermina á okkur – eða öllu heldur, ofan í vasa okkar.  Og vissulega má það til sanns vegar færa að þangað megi teygja sig eftir krónunum, hafi maður löggjafarvaldið á sinni löngu hendi.

Og það vita þingmennirnir, að fingralöngum eru allir vegir færir.