Fara í efni

VARNAÐARORÐ FORSTJÓRA LANDSPÍTALA-HÁSKÓLASJÚKRAHÚSS

Magnús Pétursson, forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss, skrifar athyglisverða grein í Morgunblaðið í nýliðinni viku. Undirtónninn er þungur enda spurt í fyrirsögn hvort farið sé að hrikta í stoðum sameiginlegrar heilbrigðisþjónustu.: "Við höfum valið að standa sameiginlega að heilbrigðisþjónustunni, enginn mælir opinberlega fyrir annarri stefnu en mér sýnist farið að hrikta í þeim stoðum. Áleitnara verður hins vegar með hverjum deginum hvernig mæta eigi vaxandi óskum almennings til þjónustu og standa undir kostnaðinum sem því fylgir. Stjórnvöldum hefur verið gjarnt að líta svo á að þörfunum, eftirspurninni, verði best mætt með því að hagræða í heilbrigðisþjónustunni, jafnvel færa þjónustuþætti í breytt rekstrarform eða til einkaaðila. Sumt af þessu er sjónarspil. Stöðugt á að ætlast til hagræðingar, hvort sem í hlut eiga opinberir aðilar eða einkaaðilar, það segir sig sjálft.."

Magnús Pétursson segir ennfremur:

"
Ónóg fjárframlög til opinberu heilbrigðisþjónustunnar munu óhjákvæmilega leiða til þess að fleiri þættir heilbrigðisþjónustunnar flytjast út fyrir almannatrygginguna og einkarekin starfsemi eflist og einkasjúkratryggingar bjóðast. Mér sýnist jarðvegur vera að myndast fyrir einkatryggingar sem tryggi einstaklingana fyrir því sem hið opinbera er ekki reiðubúið að standa undir eða til þess að leysa hið opinbera alfarið undan skyldum sínum... Íslenskt samfélag stefnir að mínu mati í þessa átt, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Fram til þessa höfum við varla treyst okkur í umræðu um þessa þróun en nú verður illa undan henni vikist. Afgreiðsla Alþingis á fjárlögum fyrir árið 2008 mun gefa tóninn."

Hvað er Magnús Pétursson, forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss að segja með grein sinni?

Í fyrsta lagi er hann að hvetja til umræðu um framtíð íslensku heilbrigðisþjónustunnar. Ekki sé allt sem sýnist í þessari umræðu hvað sem líður því sem sagt sé opinberlega.
Í öðru lagi segir hann breytt rekstrarform sem lausn á vanda heilbrigðisþjónustunnar iðulega vera sjónarspil.
Í þriðja lagi kveðst hann óttast að við stefnum hraðbyri inn í einkavætt heilbrigðiskerfi. Umræðu um það verði að taka. Vilji stjórnvalda muni sjást í verki við afgreiðslu fjárlaga.

Þannig les ég í Morgunblaðsgrein forstjóra Landspítala – háskólasjúkrahúss. Fróðlegt væri að vita hvað forstjóranum finnist um hugmyndir heilbrigðisráðherra um að búa til nýja stofnun samkvæmt gömlu - að því er ég hélt úrsérgengnu sænsku kerfi – sem á að annast viðskipti með alla þjónustu innan heilbrigðiskerfisins. Sjálfur óttast ég að þetta sé verra en sjónarspil, svo notuð séu orð Magnúsar Péturssonar. Ég óttast að með þessu sé verið að stíga afdráttarlaust skref í átt til einkavæðingar íslenska heilbrigðiskerfisins.  

Hér að neðan er ívitnuð gein Magnúsar Péturssonar:

  

Hriktir í stoðum sameiginlegrar heilbrigðisþjónustu? Eftir Magnús Pétursson

Í leiðara Morgunblaðsins 29. ágúst síðastliðinn var fjallað um gildi almannaþjónustu fyrir einstaklinginn og samfélagið í heild. Leiðarahöfundur lýsir þar afstöðu blaðsins til fjárframlaga úr sameiginlegum sjóðum til heilbrigðisþjónustunnar hér á landi í ljósi danskra viðhorfa til sama málefnis. Samkvæmt könnunum vill almenningur í Danmörku fremur að vel sé séð fyrir sameiginlegum skyldum við aldraða, sjúka og fatlaða en að stjórnvöld beiti sér fyrir skattalækkunum. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins segir um þá afstöðu Dana að þeir séu „...komnir býsna langt á þroskabrautinni og aðrir geta af þeim lært“.
Nýlega var sýnd hér á landi kvikmynd Michaels Moore, Sicko. Efni myndarinnar er eins og sterkt krydd í skrif Morgunblaðsins. Á aðra höndina dregur Moore fram þá staðreynd að milljónir Bandaríkjamanna eru án sjúkratryggingar beri slys eða sjúkdóm að höndum og rekur afleiðingar þess fyrir hlutaðeigandi. Á hinn bóginn dregur hann upp mynd af ofgnótt félagslegra réttinda sem eru að sliga hagkerfi sumra landa, t.d. Frakklands. Sarkozy, forseti Frakklands, hefur reyndar sagt að breytingar séu nauðsynlegar. Verkföllin þar í landi að undanförnu eru forsmekkur breytinga og snúast um hvort samfélagið geti staðið undir afar ríflegum eftirlaunaréttindum.

Ójöfnuður særir réttlætiskennd

Hvaða stöðu höfum við markað okkur hér á landi í þessari umræðu og hvernig teljum við ráðlegast að þróa félagslega þjónustu hér á landi, s.s. heilbrigðisþjónustu?
Spyrja má hvort heilbrigði og heilbrigðisþjónusta eigi að vera á ábyrgð einstaklingsins eða sameiginlega á ábyrgð okkar allra og hvaða gildi hún hafi fyrir samfélagsgerðina. Almenningur er kröfuharður notandi eða kaupandi heilbrigðisþjónustu hér á landi eins og annars staðar og á vafalaust eftir að eflast enn frekar enda styrkist réttarstaða hans stöðugt í þessu efni og væntingar vaxa. Í okkar huga er þetta sjálfsagt samfélagslegt viðfangsefni og skylda.
Óháð því hvort heilbrigðisþjónustan okkar er fjármögnuð úr sameiginlegum sjóðum eða með kaupum einstaklinga og tryggingafélaga þá ganga „þarfirnar framar greiðsluvilja“. Í löndum þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt af hinu opinbera takmarkast hún iðulega af ónógum fjármunum sem leiðir til biðlista og þess að sum viðfangsefni eru vel leyst en önnur síður. Þar sem sjúklingarnir greiða sjálfir eða tryggingafélög fyrir þeirra hönd standa menn aftur á móti frammi fyrir þeirri staðreynd að sumir eru tryggðir og njóta góðrar þjónustu en aðrir lítillar eða alls engrar. Ójöfnuður skapast og slíkt særir réttlætiskennd landsmanna og þykir ljóður á samfélagi. Bandaríkin eru oft nefnd sem dæmi um þetta enda leitast margir stjórnmálamenn þar í landi nú við að koma á lágmarks sjúkratryggingu fyrir alla landsmenn. Michael Porter, prófessor við Harvard Business School, sem er harður markaðshyggjumaður, hefur lýst þeirri skoðun sinni að mannsæmandi sjúkratryggingu þar í landi verði aðeins komið á fyrir tilstuðlan hins opinbera. Engin önnur öfl ráði við það viðfangsefni.

Hriktir í stoðum

Þegar horft er um öxl hefur okkur farnast harla vel við mótun og þróun samfélagsins. Samkeppnishæfni landsins er eftirtektarverð, hagvöxtur mikill og samfélagsgerðin að mörgu leyti til fyrirmyndar. Okkur ber að standa vörð um þetta. Vissulega hefur dregið úr opinberum afskiptum á mörgum sviðum samfélagsins og það leitt til framfara en nú stöndum við andspænis því að svara sömu spurningu og Danir svöruðu skilmerkilega, þ.e. hvort við viljum veikja veigamikil samfélagsviðfangsefni eins og menntun og heilbrigðisþjónustu fyrir skattalækkanir og lægri ríkisútgjöld. Um þessar mundir er litið gagnrýnni augum en oft áður á hið opinbera heilbrigðiskerfi og það sagt ofhlaðið fjármunum og að viðfangsefnið verði betur leyst af einkaaðilum. Við höfum valið að standa sameiginlega að heilbrigðisþjónustunni, enginn mælir opinberlega fyrir annarri stefnu en mér sýnist farið að hrikta í þeim stoðum. Áleitnara verður hins vegar með hverjum deginum hvernig mæta eigi vaxandi óskum almennings til þjónustu og standa undir kostnaðinum sem því fylgir.

Ekki nóg að hagræða og breyta rekstrarformi

Stjórnvöldum hefur verið gjarnt að líta svo á að þörfunum, eftirspurninni, verði best mætt með því að hagræða í heilbrigðisþjónustunni, jafnvel færa þjónustuþætti í breytt rekstrarform eða til einkaaðila. Sumt af þessu er sjónarspil. Stöðugt á að ætlast til hagræðingar, hvort sem í hlut eiga opinberir aðilar eða einkaaðilar, það segir sig sjálft. En sterkt vaxandi kröfu um að auka heilbrigðisþjónustu verður ekki mætt með hagræðingu eða breyttum rekstrarformum einum saman. Oft er fullyrt að opinbera heilbrigðisþjónustan standi ekki undir þeim væntingum og skyldum sem henni eru lagðar á herðar. Sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum eru settar fjárhagslegar skorður í ósamræmi við skyldur og væntingar og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn, sem starfa samkvæmt samningi við heilbrigðisráðherra og TR, tæma umsamda kvóta áður en árið er úti. Fátt ef nokkuð staðfestir hins vegar að um slælegan rekstur eða sóun sé að ræða í starfseminni. Ríkisendurskoðun hefur a.m.k. ekki fundið slíku stað í þeim úttektum sem stofnunin hefur gert t.d. á Landspítala.

Fjárlög 2008 munu gefa tóninn

Stærstur hluti heilbrigðisþjónustunnar hér á landi er greiddur úr sameiginlegum sjóðum, hvort sem þjónustan er veitt af opinberum stofnunum eða einkaaðilum. Nokkrir þættir hennar falla samt utan greiðsluþátttöku almannatrygginga, s.s. hluti tannlækninga, augnlækningar að vissu marki og lýtalækningar sem sumar hverjar ættu á læknisfræðilegum forsendum allt eins að vera innan sjúkratrygginganna. Þá má minna á að hjartalæknar sögðu á sl. ári upp samningi við Tryggingastofnun ríkisins (TR) og starfa nú algjörlega á einkaforsendum án nokkurra tengsla við sjúkra- eða almannatryggingarnar. Verðlagning þjónustu þeirra er frjáls og það er alfarið undir TR komið hvaða kostnaður fæst endurgreiddur. Talmeinafræðingar hafa sömuleiðis nýlega sagt upp samningum við TR og sálfræðingar starfa sjálfstætt án samnings. Þá kaupa einstaklingar læknisþjónustu erlendis sem er greidd úr eigin vasa, af vinnuveitendum eða einkatryggingum.
Almenningur mun án nokkurs efa halda áfram að leita eftir enn meiri heilbrigðisþjónustu en nú er veitt, m.a. í ljósi bætts efnahags fólks og samfélagsins í heild. Ný þekking og möguleg lækning skipta hér vitanlega einnig miklu máli. Ónóg fjárframlög til opinberu heilbrigðisþjónustunnar munu óhjákvæmilega leiða til þess að fleiri þættir heilbrigðisþjónustunnar flytjast út fyrir almannatrygginguna og einkarekin starfsemi eflistog einkasjúkratryggingar bjóðast. Mér sýnist jarðvegur vera að myndast fyrir einkatryggingar sem tryggi einstaklingana fyrir því sem hið opinbera er ekki reiðubúið að standa undir eða til þess að leysa hið opinbera alfarið undan skyldum sínum. Þetta er reynslan í löndum eins og Hollandi og Írlandi svo nærtæk dæmi séu tekin. Íslenskt samfélag stefnir að mínu mati í þessa átt, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Fram til þessa höfum við varla treyst okkur í umræðu um þessa þróun en nú verður illa undan henni vikist. Afgreiðsla Alþingis á fjárlögum fyrir árið 2008 mun gefa tóninn.

Gildi samfélagslegrar heilbrigðisþjónustu

Einstaklingar munu í framtíðinni óska eftir aukinni þjónustu sem jafnframt felur í sér aukinn kostnað. Stefna stjórnvalda er að draga úr eða að minnsta kosti hemja vöxt heildarútgjalda til heilbrigðismála. Hvort samfélagið ver 10 eða 12% þjóðarteknanna til heilbrigðismála er ekki áhyggjuefni í sjálfu sér. Viðfangsefni stjórnvalda á fremur að snúast um það hvers konar heilbrigðisþjónustu við viljum veita á grundvelli samhjálpar og hverju sé kostað til hennar. Heilbrigðisþjónustan er hluti af lífsgæðum okkar og samfélagslegu öryggi og arðsemi heilbrigðisútgjalda er mikil. Gott heilbrigði landsmanna er afar mikilvægur þáttur sterks efnahags hvers samfélags og heilbrigðisþjónustan á ríkan þátt í hagvexti þjóða.
Danir kjósa samfélagslegt öryggi í heilbrigðiskerfinu frekar en skattalækkanir. Um mikilvægi sanngirni innan heilbrigðisþjónustunnar fjallaði Moore í kvikmynd sinni.
Í leiðaranum sem vitnað var til í upphafi ítrekaði Morgunblaðið þá skoðun sína að Íslendingar sjái ekki eftir skattpeningi sínum til þess að tryggja samfélaginu gott heilbrigðiskerfi. Ég tek undir þetta sjónarmið.

Höfundur er forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss.