DÆMUM MENN AF VERKUM ÞEIRRA


Í dag heyrðist nokkuð sérstæð frétt í útvarpi. Hlustendur fengu að heyra að Framsóknarmenn í Skagafirði hefðu ákveðið að beina því til flokks síns og Alþingis að ef þingmenn tækju upp á því að stunda nám jafnframt þingstörfum væri eðlilegt að kalla inn varamenn. Í fréttinni kom fram að þingmennirnir Birkir Jón Jónsson og Magnús Stefánsson hefðu ákveðið að leggja stund á svokallað MBA nám í vetur. Birkir Jón varð til svara fyrir þá félaga og sagði að sú viðhorfsbreyting hefði orðið í samfélaginu og í afstöðu til menntunar að námi ætti í reynd aldrei að ljúka. Símenntun og endurmenntun væri í samræmi við þá hugsun.
Undir þetta sjónarmið vil ég taka. Síðan má bæta því við að mér skilst að svokallað MBA-nám sé skipulagt með þarfir vinnandi fólks í huga.

Ástæðan fyrir því að ég vil blanda mér í þessa umræðu er þó önnur. Hún er sú að mér finnst umræðan vera ósanngjörn. Ef þingmenn sem stunda nám þurfa að fara út af þingi færu þeir jafnframt út af launaskrá og yrðu þar af leiðandi tekjulausir. Það þýðir að valið stendur á milli þess að stunda námið með vinnu en hætta ella við það.

Mín skoðun er sú að þegar annir manna eru mældar, er bara einn mælikvarði til. Hann er sá að menn skuli dæmdir af verkum sínum.

Ég leyfi mér að fullyrða að báðir þingmennirnir sem í hlut eiga eru vinnusamir og samviskusamir menn sem rækja sínar  skyldur jafnvel þótt þeir hafi í mörg horn að líta. Ég er sannfærður um að þar verður engin breyting á þótt þeir komi til með að líta í námsbók meðfram þingstörfum í vetur.

Ég ráðlegg því skagfirskum Framsóknarmönnum að bíða átekta til vors og dæma þá Birki Jón og Magnús Stefánsson af verkum þeirra í vetur. Fyrir hönd þeirra félaga hef ég engar sérstakar áhyggjur af því hvernig þeir dómar muni falla.

Fréttabréf