Fara í efni

HIÐ HUGLÆGA OG MENNINGARLEGA Í TILVERUNNI

Drífa Snædal skrifar athyglisverða og mjög umhugsunarverða grein hér á síðuna þar sem hún fjallar um þá gegndarlausu auðhyggju sem læsir sig nú um þjóðarlíkamann. Drífa fjallar um markaðsvæðingu samfélagsins, sem runnin er undan rifjum stjórnvalda á undanförnum árum og víkur einnig að umræðunni um Evrópusambandið og Evruna: "Einungis efnahagsleg rök eru notuð til að reka áróður fyrir evrunni sem gjaldmiðli fyrir Ísland en það gleymist iðulega í umræðunni að það kostar að halda úti fullvalda þjóð í sjálfstæðu ríki. Á mælikvarða peninganna er engin skynsemi í því að halda úti íslenskunni. Það kostar ógrynni fjár að gefa út orðabækur, túlkaþjónusta er dýr, útgáfa skáldsagna væri miklu hagkvæmari á öðrum tungumálum, fjölmiðlarnir okkar gætu farið í útrás á ensku og svo mætti lengi telja. Það eru nefnilega önnur gild rök fyrir tilveru okkar en efnahagsleg. Þau rök verða líka að heyrast í umræðunni..."
Þessu er ég hjartanlega sammála eða skyldi einhver vera búinn að gleyma því að sú var tíð að rætt var um að flytja fátæka íslenska þjóð á Jótlandsheiðar. Það væri einfaldlega ódýrara og þar af leiðandi hagkvæmara að geyma hana þar. Það sem varð þess valdandi að Íslendingar komust úr örbirgð til bjargálna var ekki síst hið huglæga í tiverunni, menningarkrafturinn og sá vilji til framfara sem hann kynti undir. Þjóðfélag sem vanrækir hið huglæga í tilverunni og hið siðræna mun aldrei virkja þann kraft sem býr með okkur mannfólkinu á sama hátt og réttlátt og menningarlegt samfélag gerir. Sjá hugleiðingar um sama efni sem ég birti í Fréttabréfi Öryrkjabandalagsins árið 1993. Sjá HÉR