Fara í efni

Í SIGTINU HJÁ TR

Tryggingastofnun ríkisins hefur verið að sækja mjög í sig veðrið varðandi þjónustu og býður í síauknum mæli upp á rafræn samskipti. Að sjálfsögðu þarf þjónusta stofnunar á borð við TR að vera blanda af tvennu, persónulegri þjónustu sem veitt er augliti til auglitis og síðan fljótvirkum samskiptum um netið.
Það skiptir gífurlegu máli að samskipti stofnunarinnar og þeirra sem til hennar þurfa að sækja, séu í góðu lagi.  Þar kemur margt til. Í fyrsta lagi eiga opinberar stofnanir, sem reknar eru fyrir skattfé að sinna þjónustuhlutverki sínu eins vel og nokkur kostur er. Í öðru lagi á það við um TR sérstaklega, að þar er um að ræða greiðslur og þjónustu sem geta skipt þá sem í hlut eiga öllu máli varðandi sjálfa lífsafkomuna. Í þriðja lagi er kerfið á ýmsum sviðum flókið og því mikilvægt að útskýringar séu auðfengnar.
Ég fagna því sem þegar hefur áunnist í starfi Tryggingastofnunar varðandi hin rafrænu samskipti. Þá finnt mér ágæt viðleitni TR til að að örva umræðu um almannatryggingar. Þær eru nefnilega sjálfur grunnurinn að velferðarsamfélaginu og mikilvægt að gera okkur öll meðvituð um það. Mér var nýlega boðið að leggja orð í belg á heimasíðu TR í dálki sem nefnist Í Sigtinu. Þar fjallaði ég almennt um hvers megi vænta á næstunni og fagnaði sérstaklega þeirri þverpólitísku samstöðu sem varð fyrir síðustu kosningar um stórátak til að bæta kjör lífeyrisþega, sjá nánar HÉR.
Sá háttur er hafður á að hver pistlahöfundur Í Sigtinu skorar á annan einstakling að viðra sínar skoðanir á sama stað. Ég beindi þeirri ósk til Grétars Þorsteinssonar, forseta ASÍ. Nú bíðum við eftir Grétari.