Fara í efni

FYRST BORGARALEG HANDTAKA, HVAÐ SVO, DÓMSTÓLL GÖTUNNAR?


Ofbeldi í höfuðborginni fer vaxandi og er slæmt til þess að vita. Ráðist er á fólk sem er á ferli í miðborginni, einkum að kvöldlagi og að nóttu til og það að tilefnislausu barið til óbóta. Hvað er til ráða? Fyrirbyggjandi starf á að sjálfsögðu ætíð að vera fyrsta svarið. Með því er átt við að grafast þurfi fyrir um rætur vandans og reyna með því móti að koma í veg fyrir ofbeldið. Hluti af fyrirbyggjandi starfi er síðan góð löggæsla. Sýnileg löggæsla á götum úti leiðir án efa til þess að ofbeldissinnað fólk situr á sér. En það kostar peninga að fjölga í lögreglunni. Þess vegna er nú leitað að ódýrari lausnum. Svo virðist sem borgaryfirvöld séu í fullri alvöru að leita fyrir sér hjá öryggisfyrirtæki, Dyravörðum ehf., um að taka að sér öryggiseftirlit í borginni. Samkvæmt því sem fram hefur komið í fréttum er rætt um að fyrirtækið fái heimild til að annast „borgaralegar handtökur“! Hvað er „borgaraleg handtaka“? Er það ekki valdbeiting, nokkuð sem lögreglan ein hefur heimild til að inna af hendi? Verður það næst dómstóll götunnar? Handtaka, rannsókn og dómur? Hröð afgreiðsla og ódýr en ekki beint sæmandi í þjóðfélagi sem vill hafa mannréttindi í heiðri.
Þetta virðist, ef rétt er hermt í fréttum, vera fráleit hugmynd. Lögreglan starfar samkvæmt ströngum lögum og valdbeitingarheimildum sem hún hefur og eru settar þröngar skorður. Það er gert til þess að almannahagur og réttur einstaklingsins sé ætíð virtur og varinn og einnig til þess að verja lögreglumenn í erfiðu hlutverki. Að ætla sér að fela starfsmönnum öryggisfyrirtækis að axla slíkar skyldur án sömu skilyrða og menntunar og lögreglumenn gangast undir, er einfaldlega út í hött.
Það á efla löggæslu á götum Reykjavíkur. Það verður fyrst og fremst gert með því að fjölga í lögregluliði borgarinnar og búa vel að því.