Fara í efni

EINKAVÆÐING RAFORKUGEIRANS BITNAR Á ALMENNINGI

Í fréttaviðtali var Ásgeir Margeirsson, framkvæmdastjóri hjá Geysi Green Energy, sem nú reynir að komast yfir Hitaveitu Suðurnesja, spurður hvort ekki væri hætta á því að einkavæðing raforkugeirans gæti leitt til hærra raforkuverðs. Nei, Margeir hafði ekki áhyggjur af því og sagði hann nokkurs misskilnings hafa gætt í þessari umræðu. Þar sem virkur samkeppnismarkaður væri til staðar, sagði hann, þá væri raforkumarkaðurinn eins og hver annar markaður. Ef einn aðili hækkar verð á raforku þá flytji menn viðskiptin til annars aðila. "Það er ekkert flóknara en það", sagði þessi talsmaður fjárfestanna. (Frétt í RÚV er HÉR)

Fullyrðingar fjárfesta standast ekki

Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að málið sé svolítið flóknara en þetta. Vandinn er nefnilega sá að víðast hvar hefur mönnum ekki tekist að skapa virkan samkeppnismarkað með raforkuna. Í Evrópu hefur tvennt gerst við markaðsvæðingu raforkugeirans. Í fyrsta lagi hefur fyrirtækjum fækkað og stefnir víða í einokun. Í öðru lagi hefur reyndin orðið sú að hvorki fyrirtæki né heimili fara frá einu fyrirtæki til annars í leit að lægsta verðtilboði í þeim mæli sem vænst hafði verið. Þetta hefur verið mönnum áhyggjuefni innan Evrópusambandsins og hefur það komið fram í hverri skýrslunni á fætur annarri.

Gróðinn sóttur í vasa almennings

Síðan eru fjölmargir aðrir þættir við markaðsvæðinguna sem vekja efasemdir um ágæti þessarar stefnu. Í því sambandi má nefna að fjárfestar sýna ekki nægilega fyrirhyggju varðandi viðhald og varabirgðir. Þannig hafa markaðsvædd orkufyrirtæki á Norðurlöndum, svo dæmi sé tekið, ekki haldið við öllum orkuverum – aðeins þeim arðvænlegustu. Á meðan raforkuverin voru í opinberri eigu og umsjá var kappkostað að hafa varastöðvar til að grípa til þegar álagið verður mest. Þessi skortur á fyrirhyggju hefur leitt til þess að viðskiptavinir hafa þurft á slíkum álagstímum að snúa sér til annarra aðila, t.d. kaupa rándýra orku frá Þýskalandi. Þá er það enn eitt. Þeirrar tilhneigingar hefur gætt að raforkufyrirtækin hafi samráð sín á milli, skipti með sér markaðnum og sammælist um verðlag. Gaman væri að heyra talsmann Glitnis og Fl-Group, sem nú koma fram undir heitinu Geysir Green Energy, svara því hvort hann telji að á Íslandi hafi verið mjög virkur markaður með olíu og bensín á undanförnum árum og áratugum. Skyldi hann hafa heyrt minnst á olíusamráðið svokallaða!

 Steindauð Samfylking

Þegar ríkið ákvað að selja 15% hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja var hann metinn á 2,5 milljarða. Fjárfestar voru tilbúnir að borga 7,6 milljarða. Hvers vegna? Vegna þess að þeir telja sig geta grætt vel á þessu braski. Og þá er stóra spurningin: Hver borgar brúsann? Það gerum við, almenningur í landinu.
Við vissum öll að Sjálfstæðisflokkurinn vildi einkavæða raforkugeirann. Fyrir kosningar lét Samfylkingin í veðri vaka að hún væri því andvíg. Fulltrúar Samfylkingarinnar í ríkisstjórn hreyfa sig hins vegar ekki í þessu máli – frekar en fyrri daginn - til varnar almannahagsmunum. Samfylkingin sýnir ekkert lífsmark – allavega enn sem komið er. Það er helst að Gunnar Svavarsson, Hafnfirðingur blakti. GS er að vísu uppfullur af tali um fjárfestingarkosti og tvo aðila sem hann virðist leggja að jöfnu, Orkuveitu Reykjavíkur og Geysi Green Energy. Hann hefur þó sýnt að hann vill tryggja hagsmuni Hafnarfjarðar og er það vel.

Góðir tónar frá VG í Hafnarfirði og minnihlutanum í Reykjanesbæ

Hef ég sannfrétt í dag frá félögum mínum í VG í Hafnarfirði að hvað varðar að nýta forkaupsrétt Hafnarfjarðar í Hitaveitu Suðurnesja njóti hann stuðnings VG.
Sá stuðningur þarf engum að koma á óvart enda stefna VG að tryggja almannaeign á grunnþjónustu á borð við orkuveitur.
Það sem ég hins vegar sakna úr orðræðu Hafnarfjarðarkrata er sá tónn sem kemur frá VG í Hafnarfirði og minnihlutanum í Reykjanesbæ. Eftirfarandi er haft eftir Eysteini Jónssyni, bæjarfulltrúa minnihlutans á eyjunni.is  í dag: "Við teljum að Hitaveita Suðurnesja - sem á hitalagnir og vatnsveitulagnir inn í öll hús í sveitarfélaginu - eigi að vera í samfélagslegri eign...” Þetta er að sjálfsögðu mergurinn málsins. Nú er verkefnið að tryggja að svo verði.

Nokkrar slóðir á tengd efni héðan af síðunni, nánast af handahófi:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/vill-sjalfstaedisflokkurinn-ekki-laera-af-reynslunni
https://www.ogmundur.is/is/greinar/samorka-sjonvarpid-og-stadreyndir-um-einkavaedingu
https://www.ogmundur.is/is/greinar/ekki-allir-ad-gera-thad-gott
https://www.ogmundur.is/is/greinar/er-ekkert-ad-marka-yfirlysingar-framsoknarmanna