Fara í efni

HVAÐ SEGJA VANDLÆTINGARMENN NÚ?

Birtist í Morgunblaðinu 29.05.07.
Björgvin Björgvinsson stjórnandi kynferðisbrotadeildar lögreglunnar segir að lögreglan þurfi „lagalegar forsendur“ til að bregðast við ýmsum alvarlegum ósóma á netinu. Í Morgunblaðinu 25. maí kemur þetta m.a. fram í viðtali við hann en þar er fjallað um „leik“ sem gengur út á að nauðga konum:Netið er fullt af alls konar ofbeldis- og niðurlægingarleikjum og það er alveg ljóst að þetta er afar, afar ósmekklegur leikur,“ segir Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar, um japanska þrívíddartölvuleikinn RapeLay sem nálgast má í gegnum hið íslenska vefsvæði torrent.is. Segir hann rannsókn málsins þegar hafna og að í athugun sé hvaða lög geti átt við um háttsemina. Tekur hann fram að erfitt sé að koma lögum yfir saknæma háttsemi í netheimum og lögreglan þurfi að hafa lagalegar forsendur til þess að bregðast við."
Nýr heilbrigðisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson segir í viðtali við Morgunblaðið af sama tilefni : „Ég er ekki mikið fyrir boð og bönn, en ég á ekki nógu sterk orð til að lýsa vanþóknun minni á þessu. Svona efni ætti alfarið að banna.“

Móðgun eða ofbeldisglæpur?

Umræddan leik hef ég ekki séð. Þegar ég fór inn á síðu torrent.is var þetta að finna:  „Istorrent hefur farið eftir óskum kynferðisbrotadeildar lögreglu um að hindra frekari dreifingu á leiknum  „RapeLay“ á meðan rannsókn stendur yfir um lögmæti hans hér á landi. Höfnun stjórnenda á að framkvæma þessar aðgerðir fyrr byggist á því að ritskoðun á vef eins og Istorrent ætti að vera mjög takmörkuð og eingöngu notuð í neyðartilfellum eða þegar um er að ræða ótvíræð brot á landslögum. Einnig eru í bígerð frekari aðgerðir til að draga úr aðgengi notenda yngri en 18 ára að efni sem þeir ættu ekki að komast í samkvæmt landslögum. Nánari upplýsingar um þær aðgerðir verða tilkynntar síðar.
Sumir hafa sakað stjórn Istorrent um að vera siðblinda en það er munur á því að vera siðblindur og umbera það þegar aðrir vilja nýta upplýsingafrelsið. Það verður ekki alvöru tjáningarfrelsi fyrr en  fólk lærir að ekki allir hafa sömu siðferðismörk og virða þau ef til þess kemur í staðinn fyrir að ritskoða allt sem stríðir gegn manns eigin gildum. Annars endar veröldin á því að lífið verður leiðinlegt því það má ekkert gera nema móðga einhverja aðra manneskju. Þess ber að geta sérstaklega að stjórnendur Istorrent eru ekki fylgjandi alvöru nauðgunum.“

Þú mátt gera allt nema skaða aðra

John Stuart Mill, hinn mikli heimspekingur 19. aldar hefur skrifað flestum mönnum betur um frelsi einstaklingsins, réttindi minnihlutahópa og um lýðræðið. Hann lagði áherslu á að allir ættu að vera frjálsir og að enginn hefði rétt á því að hlutast til um málefni annars einstaklings að því tilskildu að hann skaðaði ekki aðra.
Nauðgun er ofbeldi gagnvart öðrum og hefur ekkert með tjáningarfrelsið að gera. Nauðgun er einfaldlega glæpur og á sér enga málsvörn. Það er svívirða gagnvart tjáningarfrelsinu að nota það til að réttlæta þetta alvarlega ofbeldi. Ef einhverjir vilja græða á löngunum manna til að meiða annað fólk þá á að ræða það í öðru samhengi en því sem gert er hér að framan af hálfu forsvarsmanna torrent.is.
Aðrir og ennþá verri hlutir gerast á netinu. Þar er að finna svívirðilegt ofbeldi gagnvart börnum og þar fer einnig fram mansal. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, sagði í fréttaviðtali í vetur að sér fyndist mikilvægt að sett yrðu í lög ákvæði sem bönnuðu þetta. Með því móti fengi lögreglan lagastoð til að taka á þessum alvarlegu glæpum líkt og lögreglan kallar nú eftir.
Við þessu brugðust ýmsir ókvæða. Guðmundur Steingrímsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar, sagði 26. febrúar: „Þetta er líklega ein óhuggulegasta hugmynd sem ég hef heyrt í stjórnmálum á Íslandi. Björn Bjarnason með sínar leyniþjónustur fölnar í samanburði. Kína, anyone?“
Steingímur Sævarr Ólafsson, fyrrum aðstoðarmaður forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins (HÁ),  fannst þetta tilefni háðulegra yfirlýsinga: „Netlögguna í ritskoðun á símaskránni á netinu strax, er það ekki?“

Ætlar Framsókn ekki að auglýsa?

Síðan kom Framsóknarflokkurinn eins og hann lagði sig með sjónvarpsauglýsingar í nýafstöðnum Alþingiskosningum þar sem spurt var hvort menn vildu netlöggu. Birtist þá teiknimynd af Steingrími J. Sigfússyni. Vildu  menn samleið með netlöggunni Steingrími eða með Framsóknarflokknum?
Nú spyr ég hvort Framsókn muni ekki auglýsa að nýju og þá hugsanlega með mynd af Björgvini Björgvinssyni, stjórnanda kynferðisbrotadeildar lögreglunnar, eða Guðlaugi Þór Þórðarsyni heilbrigðisráðherra þar sem þjóðin væri vöruð við þessum skelfilegu mönnum? Ég bíð spenntur eftir því að bloggarar Framsóknar og Samfylkingar tjái sig. Og þá gjarnan um nauðgunarglæpi, mansal og nú um framangreindar óskir íslensku lögreglunnar um lagastoð til að taka á svívirðilegum ofbeldisglæpum.