NÚ VILJA ALLIR VERA HAFNFIRÐINGAR !

Niðurstaða kosninganna í Hafnarfirði er almennt túlkuð sem tímamót í íslenskum stjórnmálum. Hér hafa stjórnvöld stefnt að því leynt og ljóst að gera áliðnað að helsta atvinnuvegi Íslendinga og hafa þau ekki sést fyrir í ákafa sínum í þessu efni. Þannig hefur ríkisstjórnin  aldrei spurt um þjóðhagslegan ávinning af áliðnaði í eigu útlendinga og hve skaðleg stóriðjustefnan kunni að vera öðrum atvinnurekstri. Þetta hefur þjóðin hins vegar verið að melta með sér og nú er að verða viðsnúningur. Fólk er búið að fá nóg af virkjunum í þágu stóriðjuauðhringa.

Ákvörðun nú um að stækka álverið í Straumsvík (úr 180 þúsund tonna framleiðslu í 460 þúsund tonn) er allt annars eðlis en  stækkunaráform fyrir rúmum áratug (úr 90 þús. tonnum í 180 þúsund tonn) en þau áform studdi ég á sínum tíma.
- Árið 1995 voru framleidd 90 þús. tonn af áli á Íslandi.
- Nú er búið að veita heimild fyrir tæpum milljón tonnum (916 þúsund) !
- Árið 1995 var heildarframleiðsla raforku í landinu 4.650 GWst.
- Með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar verður heildarframleiðsla raforku 12.200 GWst, þar af 9.793 GWst eða u.þ.b. 80% til stóriðju.
Á þessu tímabili hefur íslenskt  þjóðfélag verið nánast veðsett í þágu stóriðjunnar; í atvinnugrein sem skapar þjóðinni minni virðisauka en flestar aðrar greinar.

Nú segja fjölskyldurnar í landinu og forsvarsmenn fyrirtækja í vaxandi mæli að nóg sé komið. Hafnfirðingum birtust öfgar þessarar stóriðjuáráttu þegar ætlast var til þess að þeir greiddu götu þess að innan bæjarmarkanna yrði rekin stærsta álverkasmiðja Evrópu. Það fór svo að  Hafnfirðingar sneru þessu tafli við.
Grasrótarsamtökin Sól í Straumi áttu að sönnu samstarf við systursamtök annars staðar á landinu; grasrótarsamtökin sem kenna sig við Sólina. Þau samtök urðu fyrst til í Hvalfirðinum og eru nú að eflast á Reykjanesi og Suðurlandi. Vegna árangurs Hafnfirðinga er Hafnarfjörður nú orðinn táknrænn fyrir árangursríka baráttu í þágu náttúruverndar og skynsamlegra búskaparhátta þjóðarinnar. Þetta er skýringin á því að margir bera nú merkið ÉG ER HAFNFIRÐINGUR. Ekki svo að skilja að allir sem bera merkið séu búsettir í Hafnarfirði. Þetta er einfaldlega táknræn viðurkenning á árangursríkri baráttu Hafnfirðinga.
Nú vilja allir fara að fordæmi þeirra. Á því gefst kostur í Alþingiskosningunum 12. maí. Þar þarf enginn að efast um afstöðu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs til glórulausrar stórðiðjustefnu. VG vill náttúruvernd, skynsamlega nýtingu orkulinda og efnahagsstjórn sem stuðlar að fjölbreytni.

Fréttabréf