Fara í efni

HVER ER MUNURINN Á VÍTISENGLI OG KLÁMFRAMLEIÐANDA?

Fyrir nokkru stöðvaði lögreglan hóp norrænna Vítisengla sem hingað voru komnir til að nema ný lönd fyrir glæpastarfsemi sína. Við komuna til landsins var þeim vísað brott. Þetta mæltist almennt mjög vel fyrir. Almannarómur var á þá lund að fólk í illum erindagjörðum ætti ekki að vera velkomið til landsins, nema síður væri. Til voru efasemdarmenn um þessar aðfarir og var ég í hópi þeirra sem á Alþingi velti vöngum á réttarfarslegum forsendum. Hinu neita ég ekki að gott er að vera laus við glæpamenn af þessu sauðahúsi.
Kolbrún Halldórsdóttir, alþingsmaður, vísar til afstöðu stjórnvalda í Vítisenglaheimsókninni í áskorun til ríkisstjórnarinnar um að beita sér gegn ráðstefnu klámframleiðenda, sem hyggjast koma saman hér á landi á næstunni og leggja á ráðin til að efla klámiðnaðinn. Kolbrún Halldórsdóttir bendir á að slíkt stríði gegn íslenskum lögum. Þetta er hárrétt ábending hjá Kolbrúnu og hlýtur nálgun hennar að kalla á umræðu og skoðun.
Áskorun Kolbrúnar Halldórsdóttur fylgir hér með:

Áskorun til ríkisstjórnar Íslands.
Ég undirrituð skora á ríkisstjórn Íslands að grípa til aðgerða gegn fyrirhugaðri kaupsstefnu klámframleiðenda, sem halda á í Reykjavík 7. – 11. mars nk. Af fyrirliggjandi upplýsingum um kaupstefnuna og atburði tengda henni kemur í ljós að hér er um að ræða stefnumót margra öflugustu klámframleiðenda í heimi, fyritækja sem hafa gríðarlegar tekjur af því að markaðssetja og selja konur.
Íslensk löggjöf leggur refsingu við innflutningi, sölu og dreifingu á klámi (sjá 210. gr. almennra hegningarlaga*). Það hlýtur því að vera eðlilegt að hvetja yfirvöld, af þessu tilefni, til að vera á verði og grípa til nauðsynlegra ráðstafana svo ekki komi til lögbrota af því tagi sem þar er getið.
Íslensk stjórnvöld eru einnig skuldbundin samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum til að beita sér í baráttunni gegn mansali. Það er alkunna að klámiðnaðurinn er viðriðinn refsiverða starfsemi af því tagi og því teljum við nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld bregðist nú við í þágu þeirra kvenna og barna sem slíkir samningar eiga að vernda. Þegar heimasíða kaupstefnunnar er skoðuð http://www.snowgathering.com/   sést glögglega hvers konar fyritæki það eru sem að henni standa. Á tenglum inn á heimasíður þeirra blasa m.a. við tilboð um kynlíf með börnum, sem hvorki kunna ensku eða vita nokkuð um það á hverju þau eiga von.
Íslensk stjórnvöld hafa áður beitt sér á svipaðan hátt og hér er óskað eftir. Það gerðu þau árið 2004 þegar komið var í veg fyrir að fjöldi vítisengla kæmi inn í landið til hátíðarhalda, sem þá voru fyrirhuguð.  Í því tilfelli sem hér um ræðir ættu að gilda sambærileg rök og er því hvatt til aðgerða sem forðað geta því að fyrirhuguð kaupstefna klámframleiðenda verði  haldin á Íslandi.
Kolbrún Halldórsdóttir
8. þingmaður Reykjavikurkjördæmis norður

* 210. gr. Ef klám birtist á prenti, skal sá, sem ábyrgð ber á birtingu þess eftir prentlögum, sæta sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum.
Sömu refsingu varðar það að búa til eða flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum, eða hafa þá opinberlega til sýnis, svo og að efna til opinbers fyrirlestrar, eða leiks, sem er ósiðlegur á sama hátt. Þegar slíkt efni sýnir börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt getur refsing þó orðið fangelsi allt að 2 árum.
Það varðar ennfremur sömu refsingu, að láta af hendi við unglinga, yngri en 18 ára, klámrit, klámmyndir eða aðra slíka hluti.
Hver sem flytur inn, aflar sér eða öðrum, eða hefur í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum ef brot er stórfellt. Sömu refsingu varðar að flytja inn eða hafa í vörslu sinni ljósmyndir, kvikmyndir eða sambærilega hluti sem sýna börn í kynferðisathöfnum með dýrum eða nota hluti á klámfenginn hátt.