Fara í efni

ÆTLAR FRAMSÓKN VIRKILEGA AÐ SVÍKJA RÍKISÚTVARPIÐ?

Birtist í Blaðinu 10.01.07.
Í Blaðinu sl. fimmtudag er fróðleg frétt um frumvarp ríkisstjórnarinnar um háeffun Ríkisútvarpsins undir fyrirsögninni Málið í sama hnút og áður. Rætt er við formann menntamálanefndar Alþingis Sigurð Kára Kristjánsson, hinn geðþekka og galvaska frjálshyggjumann, sem áður flutti frumvarp um að ganga enn lengra og hreint til verks og selja RÚV þegar í stað. Sigurður Kári er hinn ánægðasti með gang mála: „Ég er bara hress. Málið er þó í sama hnút og áður fyrr og menn eru ósammála um rekstrarformið.“ Hér talar formaður menntamálanefndar Alþingis Íslendinga. Hann er hinn hressasti þótt málið sé í bullandi ágreiningi. Einhvern tíma þótti skipta máli að sátt væri um útvarp allra landsmanna! Þykir mönnum þetta vera ábyrgt tal og það vera ábyrgur stjórnmálaflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, sem stendur svona að málum?

Blaðið ræðir einnig við fulltrúa Framsóknarflokksins í menntamálanefnd Alþingis, Dagnýju Jónsdóttur. Hún segist eiga „von á því að þetta verði fyrsta mál á þingi“, þ.e.a.s. þegar það kemur saman nú um miðjan mánuðinn. Alþingismenn geta vissulega átt sínar vonir og drauma en verra er þegar ranglega er staðhæft um réttindamálin. Fulltrúi Framsóknar segir nefnilega: "Að okkar mati eru réttindamál starfsmanna RÚV í góðum farvegi."
Hvernig er eiginlega hægt að komast að þessari niðurstöðu þegar samtök starfsmanna staðhæfa hið gagnstæða og biðja um að frumvarpinu verði vísað frá? Háeffun Ríkisútvarpsins sviptir starfsfólkið mikilvægum réttindum, hunsar gerða samninga um lýðræðislega aðkomu þess að stjórn stofnunarinnar og tekur hana undan stjórnsýslulögum sem tryggja eiga jafnræði innan starfsemi sem fjármögnuð er af almannafé. Fulltrúi Framsóknar segir að málin séu í góðum farvegi!
Blaðið ræddi einnig við Kolbrúnu Halldórsdóttur, fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Þar kveður við allt annan og lýðræðislegri tón. Kolbrún vill víðtæka sátt um málið og furðar sig á afstöðu stjórnarflokkanna, ekki síst Framsóknar: "Framsóknarflokkurinn hefur ákveðið að standa ótrauður við hlið sjálfstæðismanna í þessu frumvarpi. Ég er ekki viss um að flokkarnir tveir þoli mikla rökræðu um þetta mál þegar það verður komið í sal Alþingis."
Þetta er raunsætt mat hjá Kolbrúnu Halldórsdóttur og tek ég undir það. Kolbrún talar um mikilvægi rökræðunnar. Spurningin er hins vegar hvort stjórnarþingmenn treysti sér yfirleitt í rökræðu um málið. Um það hef ég miklar efasemdir. Sjálfstæðismenn fylgja sannfæringu sinni um að stíga markviss skref í átt að endanlegri einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Framsókn sem á sínum tíma lofaði að standa vörð um Ríkisútvarpið sem almannaútvarp mun hins vegar að öllum líkindum svíkja gefin fyrirheit í þá veru og elta sitt máttfarna skott niður á milli fóta sér í fylgispekt og undirgefni við þann aðilann sem ræður í ríkisstjórninni. Eða hvað, ætlar Framsókn virkilega að svíkja Ríkisútvarpið?