Fara í efni

YFIRVOFANDI BREYTINGAR Á REKSTRI RÚV EÐA VÆRI RÉTT AÐ HUGSA MÁLIÐ BETUR?

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og Páll Magnússon, útvarpsstjóri eiga ekki Ríkisútvarpið. Þjóðin á þá stofnun. Í Kastljósi í kvöld hafði ég á tilfinningunni að þau gerðu sér ekki grein fyrir þessu. Þau ræddu lagafrumvarp sem ekki hafði einu sinni verið lagt fram á Alþingi um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins, hvað þá að það byggði á breiðri samstöðu og sátt sem einhvern tímann var lofað varðandi breytingar á lögum um Ríkisútvarpið. Engin slík viðleitni hafði verið uppi. Stjórnarandstaðan kom af fjöllum – hafði ekki einu sinni séð frumvarpið í drögum. Samt var þetta rætt eins og allt væri klappað og klárt og sjónvarpsmenn voru svo ljónheppnir að menntamálaráðherra og útvarpsstjóri voru reiðubúin að sameinast í kynningarátaki í Kastljósi.

Í þættinum kvað Páll Magnússon frumvarpið vera mikið fagnaðarefni og óskaði okkur öllum til hamingju!  Síðan hafði hann mörg orð um skilvirkt stjórnkerfi, sem nútíminn heimtar...færir okkur inn í núið... Gamalkunnugt en óneitanlega fremur innihaldsrýrt tal. Ráðherrann sagði að Páll fengi nú tæki og tól varðandi lagaumhverfið. Þetta virtist lykilatriði fyrir Pál, sem einnig var spurður um hugmyndir sem hann hefði um tiltekt hjá Ríkisútvarpinu. Allt á þetta að kosta minna sagði Þorgerður Katrín en Páll sagðist hins vegar treysta menntamálaráðherra, ríkisstjórninni og Alþingi, að tryggja fjárhag Ríkisútvarpsins.

Við þetta vakna ýmsar spurningar.

Í fyrsta lagi sú ofurtrú sem þau félagarnir Þorgerður Katrín og Páll hafa á forstjórahyggjunni. Ég held hins vegar að þarna séu þau á miklum villigötum. Styrkur Ríkisútvarpsins hefur verið starfsfólkið og sú menningarhefð sem starfsemin á rætur í. Farsælir útvarpsstjórar hafa byggt á þessari hefð ekki tólum forstjóra til að taka til. Auðvitað skilja þeir sem þarna hafa starfað – og það hef ég gert -  fyrr en skellur í tönnum. Með hlutafélagavæðingu kemst forstjórinn undan stjórnsýslulögum, ýmsum ákvæðum upplýsingalaga og réttindum starfsfólks, sem við mörg lítum á sem mannréttindi. Hann öðlast með öðrum orðum rétt til að ráða og reka og ráðskast með fólkið. Finnst  þeim Þorgerði Katrínu og Páli Magnússyni líklegra til árangurs að flytja tólin sem Páll Magnússon sem sjónvarpsstjóri á Stöð tvö hafði þar til ráðstöfunar inn í Ríkisútvarpið? Á Stöð tvö var vissulega hægt að reka fólk skýringarlaust. Og það var gert. Er það þetta sem menn eru að sækjast eftir?

Í öðru lagi er rétt að víkja að trausti Páls Magnússonar á menntamálaráðherra, ríkisstjórn og Alþingi varðandi fjárveitingar til Ríkisútvarpsins. Ég get upplýst hann um að núverandi stjórnarmeirihluti hefur markvisst fjársvelt Ríkisútvarpið og jafnan þegar spurt hefur verið í umræðum á Alþingi hvort menn sjái eitthvert ljós framundan í fjárhagsþrengingum RÚV þá hefur það verið stjórnarandstaðan ein – ekki menntamálaráðherra eða ríkisstjórn, - sem þar hefur reynst velviljuð. Halda menn virkilega að með því að gera þessa þjóðareign að leiksoppi manna, sem vilja geta ráðskast með hana að eigin vild, muni Ríkisútvarpið eiga ævarandi stuðning allra þeirra sem stutt hafa stofnunina til þessa? Halda menn virkilega að alltaf verði bæði sleppt og haldið?  Ég held að menn ættu að hugsa sinn gang. Hver veit nema að fjölgi í þeim hópi sem neiti að greiða afnotagjöld, þess vegna nefskatt. Ég leyfi mér að hafa um það ákveðnar efasemdir að þjóðfélagsþegnarnir, skattgreiðendurnir, láti bjóða sér að Ríkisútvarpið verði fært undan yfirráðum þeirra og meira að segja úr augsýn þeirra á sama tíma og þeir verða krafðir um að standa straum af kostnaði við stofnunina. Út á þetta ganga þessar breytingar. Gegn þeim verður án efa mikil andstaða.

Fyrir liggja svo aftur tillögur, sem myndu bæta stjórnkerfi Ríkisútvarpsins, efla atvinnulýðræði innan veggja stofnunarinnar og auðvelda aðkomu almennings að henni en án þess eða skera á tengslin við eigendurna – fólkið í landinu. Væri ekki þess virði að ræða þessar tillögur?