Fara í efni

...OG GUÐI ÞAÐ SEM GUÐS ER


Í leikmynd Michelangelós.

Var það ekki í Biblíunni sem segir að menn eigi að gjalda keisaranum sem keisarans er og guði það sem guðs er? Auðmenn Íslands hafa ekki verið neitt sérstaklega áfjáðir í að gjalda keisaranum, þ.e. greiða skatta og skyldur til hins opinbera þótt vissulega hlíti þeir margir þeim reglum sem um það gilda. Á liðnum árum hefur stétt auðmanna í góðu samstarfi við ríkjandi stjórnvöld náð að lækka skatta á hátekjufólk og fyrirtæki en á sama tíma hefur skattbyrði lágtekjufólksins aukist. Með minnkandi sköttum hafa valdahlutföllin í þjóðfélaginu snúist við, auðvald hefur komið í staðinn fyrir lýðvald. Auðmenn veita nú fjármunum til líknar- og menningarmála í ríkari mæli en áður var en hið opinbera dregur saman seglin. Talsmenn kapítalismans segja að fjármálamennirnir þurfi ekki að óttast að "hér sé sósíalismi kominn á kreik", svo vitnað sé í  Þorkel Sigurlaugsson í grein í  Viðskiptablaðinu 29. júní sl. þar sem hann talar fyrir "þjóðfélagslegri ábyrgð fyrirtækja" . Hann segir að þau eigi að gefa til líknar- og menningarmála og leggur áherslu á að "hér er verið að tala um að þetta verði gert á forsendum fyrirtækjanna".


"...Presturinn rétti þeim eitthvað sem gat líkst bita..."

Svo var að sjá að það hefði líka verið á forsendum fyrirtækjanna sem efnt var til helgistundar í Grafarvogskirkju um helgina. Fulltrúar Baugs Group, VÍS og Landsbankans reiddu þar fram fyrir framan altarið milljónatugi til kaupa á orgeli fyrir kirkjuna. “Þegar inn kom settust þeir inn í aðra leikmynd kristninnar kaupsýslumennirnir. Nú settust þeir fyrir fram altarið, þéttir á velli, í afskræmt afbrigði af síðustu kvöldmáltíðinni í gerð Michelangelós og voru allt í senn persónur, leikendur og gerendur í sjálfum kristindómnum og vestrænni menningu. Þeir voru að gefa orgel, eða leggja fram innborgun, það skiptir ekki máli. Presturinn rétti þeim eitthvað sem gat líkst bita. “Og eftir þann bita fór Satan inn í hann.” Þetta er að verða geðslegt, eða hitt þó heldur. Fyrst er þeim tryggður fákeppnisaðgangur á Alþingi að okkur sem þurfum á nauðsynjum og tryggingum að halda með því að götótt lög um samkeppnishömlur og eftirlit eru sett. Svo kaupa þeir upp fjölmiðlana til að geta séð okkur fyrir andlegu fóðri, afþreyingunni stjórna þeir og kaupa, forsetann virðast þeir hafa eignast fyrir smotterí og nú er það kirkjan. Þarf maður virkilega að segja sig úr sambandi við þetta þjóðfélag til að losna við þessa lágkúru?...”

Þetta er tilvitnun í lesendabréf frá Ólínu, sem síðunni barst og er að finna HÉR í heild sinni. Sannast sagna þykir mér Ólína hafa mikið til síns máls. Og vel á minnst. Gæti verið að menn séu farnir að rugla saman keisaranum og guði? Alla vega er Guði nú goldið með hinum keisaralegu aðferðum – í krónum talið og það við altarið. Finnst kirkjunnar mönnum þetta vera í góðu lagi?