Fara í efni

RÚV, SINFÓNÍAN OG PÁSKARNIR

Á páskum, öðrum árstímum fremur, hlusta ég mikið  á útvarp. Gamla Gufan, Rás 1, verður þá jafnan fyrir valinu. Það væri mikil eftirsjá að Ríkisútvarpinu ef það hyrfi af sjónarsviðinu í þeirri mynd sem við þekkjum það. Okkur er sagt að með frumvarpi ríkisstjórnarinnar sé stefnt að því að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins. Það skuli meðal annars gert með því að draga úr skyldum þess. Þannig verði Ríkisútvarpið losað við Sinfóníuna, svo mikilvægt dæmi sé nefnt. Mig minnir að á annað hundrað milljónir eigi að sparast með því. En skyldi nú ekki eitthvað þurfa að greiða fyrir tónlist frá Sinfóníuhljómsveit Íslands í Ríkisútvarpinu þótt núverandi kostnaðarskuldbindingar RÚV verði numdar brott. Eða á að líta á Sinfóníuhljómsveit Íslands sem hverja aðra sinfóníuhljómsveit sem fyrirfinnst í heiminum? Þetta væri í samræmi við hægri sinnaða hugmyndafræði markaðshyggjunnar: Allir jafnir á markaði. Á Íslandi hefur okkur hins vegar tekist að byggja upp mjög traustar menningarstofnanir á allt öðrum hugmyndagrunni: Með samvinnu.

Ríkisútvarpið er samtvinnað íslenskri menningu og menningarstofnunum á margvíslegan hátt. RÚV er í senn framleiðandi og eins konar þjóðarsafn tóna, tals og mynda. Á Ríkisútvarpið hefur verið hlaðið skyldum á skyldur ofan. Ef skyldurnar eru teknar af Ríkisútvarpinu – þeim létt af stofnuninni eins og það heitir - mun lítið fara fyrir réttindum stofnunarinnar þegar fram líða stundir. Enda má spyrja hvaða réttlæting sé fyrir því að reka Ríkisútvarp, sem ekki þarf að rækja neinar menningarlegar skyldur.
Ég er ekki viss um að fólk úr stjórnarherbúðunum sem er velviljað Ríkisútvarpinu – fólk sem alls ekki vill grafa undan RÚV - hafi hugsað þessi mál til enda. Ég get að sjálfsögðu ekki gert kröfu um að allir fallist á mínar skoðanir. En vonandi fáum við tíma til að ræðast við áður en örlagaríkar ákvarðanir eru teknar.

Annars er mér efst í huga - að loknum páskum - að þakka fyrir frábæra dagskrá. Margt var ágætt í Sjónvarpinu og á Rás tvö en sem áður segir var Gufan mín – eða ég Gufunnar um hátíðarnar. Þar voru í boði fræðandi þættir um skáld og listamenn, innlenda sem erlenda, lesið úr bókmenntum og boðið var upp á frábæra tónlist með innlendum og erlendum listamönnum, þar á meðal að sjálfsögðu Sinfóníuhjómsveit Íslands.