Fara í efni

Af Okkur - þökkum blandin gagnrýni

Nýhil útgáfan hefur gefið út annað rit sitt og nefnist það Af okkur undir ritstjórn Viðars Þorsteinssonar og fjallar um þjóðerni og hnattvæðingu. Fyrsta ritið hét Af Stríði undir ritstjórn Hauks Más Helgasonar og fjallaði sú bók um Íraksstríðið og var lítillega um hana fjallað hér á síðunni enda bókin sérlega áhugaverð og vekjandi (sjá hér). Í þessu riti er fjöldi greina, frumsaminna og þýddra, auk ljóða og teikninga. Í stuttu máli er þessi bók stórskemmtileg. Hún er vekjandi og stundum nokkuð ögrandi, alla vega fyrir mann af mínu pólitíska sauðahúsi – nægilega ögrandi til að halda mér vel við efnið og verða mér hvatning til að bregðast við ýmsu sem fram kemur á síðum bókarinnar. Þannig ná höfundar og útgefendur takmarki sínu að örva gagnrýna umræðu í þjóðfélaginu. Aðstandendur bókarinnar eiga lof skilið fyrir framtak sitt.

Í grein sinni Stökkbreytingin vitnar greinarhöfundur, George Manbiot, í skáldsögu eftir Michael Houellebecq þar sem segir: "Þegar frumspekileg stökkbreyting hefur átt sér stað heldur hún áfram að þróast mótspyrnulaust þar til hún hefur haft allar þær afleiðingar sem hugsast getur. Án þess einu sinni að taka eftir því sópar hún burtu efnahags- og stjórnmálakerfum, siðferðilegu gildismati, tignarröðum. Enginn mannlegur máttur getur stöðvað framrás hennar – enginn annar máttur en máttur nýrrar frumspekilegrar stökkbreytingar (bls. 91)."

Dæmi um þetta hafi verið útbreiðsla kristni og islam. En hver skyldi vera hin "frumspekilega stökkbreyting" sem nú fer um heiminn sem eldur í sinu? George Manbiot segir að hingað til hafi menn "svarið útilokandi samfélögum hollustu sína (bls.91)". Hér er skírskotað til þjóðríkisins. "Hin nýja stökkbreyting mun neyða okkur til að gefa þjóðríkið upp á bátinn, rétt eins og við gáfum barónsdæmið og ættflokkinn áður fyrr upp á bátinn. Hún mun sýna okkur fram á fáránleika þeirra tryggðarbanda  sem hafa stíað okkur í sundur. Í fyrsta sinn í mannkynssögunni munum við líta á hvern og einn einstakling sem fulltrúa einnar og sömu tegundarinnar (bls.92)" Þetta er rauði þráðurinn í bókinni: Róttæk heimsvæðing eða hnattvæðing þar sem þjóðernishyggja og sundrandi hugmyndakerfi, sem svo er nefnd, eru okkur ekki lengur fjötur um fót. "Það hefur reynst auðvelt að notfæra sér tryggð okkar", segir George Manbiot, "milljónir hafi verið sendar í opinn dauðann í styrjöldum á borð við fyrri heimsstyrjöldina í nafni þjóðernisins. Hermennirnir hefðu betur steypt herforingjum sínum af stóli og upprætt þau hagsmuna-og  hugmyndakerfi sem sendu þá í stríð".

Viðar Þorsteinsson ritstjóri bókarinnar spinnur með þennan þráð í formála bókarinnar. Hann tekur okkur vinstri sinnaða þjóðernislega þenkjandi menn nokkuð á beinið. Okkar pólitík, þ.e.a.s. að segja sú hugsun að rækt við mismunandi þjóðerni stuðli að fjölbreytileik í heiminum sé vissulega "einfeldningslega falleg hugmynd" en þrennt færi hana á kaf:

Í fyrsta lagi, segir Viðar, er þjóðernishyggja "útilokandi hugmyndafræði". Hún "býr til stigveldisbundna flokkadrætti á milli fólks".  Þetta sé mjög varhugavert og mjög ákveðið á Íslandi þar sem þjóðin er orðin blönduð fólki af mismunandi uppruna. Staðhæfing vinstri manna um að verndun íslenskrar tungu sé æskileg og liður í alþjóðlegu mennigarandófi gegn amerískri hamborgaravæðingu er aldeilis fráleit að mati Viðars, fráleit því "skipulögð hreintungustefna getur aldrei verið annað en liður í skipulagðri stéttaskipttingu þegar ljóst er að gullaldaríslenska getur aldrei orðið öllum þegnum þessa þjóðfélags jafn aðgengileg vegna kringumstæðna þeirra.(bls.9)"

Í öðru lagi"það rangt að Ameríka sé í eðli sínu einsleitt og vont fyrirbæri. Mennigarlíf á Íslandi hefur aldrei grætt eins mikið á neinu og því að verða fyrir áhrifum af hinum af hinum enskumælandi heimi (bls.10).” 

 Í þriðja lagi "fjölbreytileikahugmyndin vond strategía gegn kapítalismanum, sé henni ætlað að vera það. Þegar kemur að því að fjalla um hnattvæðinguna almennt er íslenska vinstrið fast í hinni úreltu gagnrýni hægrimanna 20 aldar: Það er ófært um að gagnrýna kapítalismann öðruvísi en á forsenfum alræðis og einsleitni ... Kapítalisminn nærist á fjölbreytni(bls.10)."

Viðar Þorsteinssosn lítur á þjóðernispólitík sem hægri sinnaðan popúlisma sem falli í kramið á Íslandi. Á Íslandi sé almennt litið á þjóðernispólitík sem jákvætt hlaðna hugmynd, "eins konar auðlind sem öllum stendur til boða að nýta sér(bls.6)." Ég ætla að gera þá játningu að þetta er hugsun sem ég hef stundum daðrað við, það er hinn huglæga kraft sem býr í samkennd sem á rætur í menningararfi. Hópefli á grunni menningararfs tel ég geta verið til góðs, einkum hjá fámennum þjóðum eins og okkar, þótt ég verði vissulega að viðurkenna að fleiri dæmi séu af neikvæðum áhrifum þessa í hrokafullum yfirgangi og hernaðarhyggju. Þá hef ég stundum tekið sem dæmi um jákvæðar hliðar samkenndarinnar viðhorf til brotamanna sem lenda í fangelsi á erlendri grundu. Þótt glæpir þeirra séu slæmir, jafnvel fyrirlitlegir, og allir formæli viðkomandi einstaklingum, þykir mönnum sjálfsagt að ná í þessa menn "heim". Þegar allt kemur til alls berum við eins konar fjölskylduábyrgð á þeim. Þessi samkennd – bæði í blíðu og stríðu -getur verið góð þykir mér. Þeir sem eru á öndverðum meiði telja til dæmis að allt þetta stríði gegn jafnræðisreglum sem eigi að skilgreina út frá forsendum réttarríkis og ekki annarra tengsla. Auk þess sé eiturlyfjasmygl og hórmang viðbjóðslegir glæpir og þeir sem slíkt ástunda eigi fátt gott skilið. Hér eigi að gilda gömul og góð formúla: Hver er sinnar gæfu smiður.
Guðbergur Bergsson, rithöfundur kemst að þeirri niðurstöðu í grein sinni um ímyndir og ímyndun, að jafnvel þótt sú hugmynd sem Íslendingar hafi um sjálfa sig hafi verið flöktandi í tímans rás þá sé einhver grunnhugsun á sínum stað. Um eigin afstöðu er Guðbergur nokkuð óræðinn en segir að almennt skynji fólk undir niðri "að kannski er betra að eiga einhverja ímynd en enga, þótt lítill fótur sé fyrir henni og hún hafi kannski frá upphafi verið fótlama og lítt fær um að leiða fram á við."  Ímyndin veitir þannig sjálfsöryggi þótt hún sem slík "leiði(r) ekki fram á við."
Eiríkur Örn Norðdahl sem skrifar hressilega og vekjandi grein gerir harða hríð að samkenndar- kenningunni sem ég sagði að höfðaði til mín. Hann segir að okkur renni blóðið til skyldunnar "þegar maður er handtekinn fyrir glæp í erlendu landi, hálfur Íslendingur handtekinn í Taiwan fyrir hórman, og utanríkisráðherra er strax kominn í málið. Og íslenska þjóðin krefst þess, þó henni sé sama um pólitíska fanga í Kína, á Kúbu og í Bandaríkjunum."
En er þetta alveg rétt? Er þetta aðeins spurning um annað hvort eða? Mér þykir styrkur bókarinnar vera hinar hreinu línur. En jafnframt er það veikleiki hennar að mínu mati; að sjá hlutina ævinlega aðeins í svart hvítu, annað hvort eða. Þannig er bandarísk menning talin búa yfir dýpt og fjölbreytni, en íslenskur menningararfur er afgreiddur sem einsleitur og lítt púkkandi upp á. Er ekki staðreyndin sú að bæði samfélögin bjóði upp á fjölbreytileika en jafnframt einsleitni þegar kemur að markaðsvæddri fjöldaframleiðaslu. Það sem síðan greinir bnadaríska fjöldaframleiðslu frá annarri er hve ágeng hún er um heim allan. Og varðandi þjóðerni og ábyrgð spyr ég hvort ekki sé allt í lagi að hafa áhyggjur af týnda syninum í Malaga – já, og líta þannig á hann, sem týnda soninn, jafnframt því að berjast gegn fangelsunum og pyntingum í Guantanamó? Hlutskipti fanganna í Malaga og Guantanamo er af gerólíkum toga og á ekkert sameiginlegt annað en að í báðum tilvikum er fangelsi samastaðurinn. Ef þetta þykir ekki tæk nálgun varðandi íslenska brotamanninn þá vil ég spyrja áfram. Ef fanginn í útlöndum væri bróðir þinn eða sonur, hvað þá? Hvað væri þér leyfilegt að gera í heimi jafnræðisreglunnar? Lætur hinn nýi maður 21. aldarinnar fjölskyldutengsl ef til vill hvergi trufla sig fremur en þjóðerni? Er hann bara maður prinsippanna, stendur og fellur með þeim?

Það er þó ekki þetta sem vekur mig til efasemda af því sem fram kemur í bókinni heldur sú örlagahyggja og þá ekki síður forræðishyggja sem fram kemur á nokkuð afgerandi hátt. Glóbalíseringin er sögð óumflýjanleg, þjóðríkið óumdeilanlega dauðadæmt. Þetta er okkur sagt að sé staðreynd, sem varla þurfi umræðu.("Heiminum verður stýrt hnattrænt hvort sem við tökum þátt í því eða ekki. ( bls. 94)... Við þurfum að beisla vald hnattvæðingarinnar ... steypa stofnunum hnattvæðingarinnar af stóli og skipta þeim út fyrir okkar eigin ... Þær athafnir okkar munu leiða af sér það tímabil þar sem mannkynið lætur af fáránlegri tryggð sinni við þjóðríkið (G. Monbiot bls. 96.)."

Já, ég sagði forræðishyggja. Það sem helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann ... Ekki held ég það sé ásetningur neins höfundanna að boða forræðishyggju. Þvert á móti: Manbiot, höfuðhugmyndafræðingur bókarinnar, boðar lýðræðisvakningu gegn forræði fjármagnsins. Það gerir hann hins vegar á máta sem minnir mjög á Kommúnstaávarp þeirra Marx og Engels. Hugmyndafræðingarnir einir skilja gangverk sögunnar og eiga þess vegna að hafa vit fyrir fólkinu þannig að hið óhjákvæmilega geti orðið að veruleika sem fyrst – en vissulega á okkar forsendum – forsendum fólksins ekki fjármagnsins. Baráttusveitir "fyrstu hnattrænu lýðræðisbyltingarinnar (bls. 103)” telja tugmilljónir meðlima, segir Manbiot, aðallega í fátæku ríkjunum.  En þetta fólk "er ef til vill ekki fyllilega meðvitað um verkefnið sem það er að taka þátt í ... líkt og margir aðrir hvatar þurfa þau að mæta áhættu eyðileggingarinnar þegar afleiðingarnar koma í ljós, en ef þau láta ekki ríða til höggs mun tækifærið sem andstæðingar þeirra sköpuðu fara forgörðum.(bls. 93)"

Allt hljómar þetta kunnuglega frá þeim tíma þegar "hugmyndafræðingar" hinnar marxísku byltingar voru upp á sitt besta. Og vissan  um hina sögulega framvindu er til staðar í eftirfarandi kafla úr Monbiot; með ákallinu til okkar um að beina henni inn í farveg sem þjónar okkar hagsmunum. Það er okkar tækifæri til að "breyta gangi sögunnar"Mér fannst ég vera að lesa ávarp þeirra Marx og Engels. Í sjálfu sér get ég skrifað upp á hvert eftirfarandi orð Monbiots þótt ég fylgi ekki hugsun hans að ýmsu öðru leyti eins og fram hefur komið: ”Hnattræn harðstjórn eiginhagsmuna hefur grafið sína eigin gröf. En hún hefur gert meira en það; hún er farin að þvinga fram umbreytingu á viðmiðum hugsunar okkar, og skyldað okkur þar með til að viðurkenna þau hnattrænu mál sem skilgreina hagsmuni hvers útkjálka. Ennfremur knýr hún okkur til að bregðast við þeirri viðurkenningu. Hún hefur veitt okkur valdið til að breyta gangi sögunnar (bls.93).”

En þótt ég þykist sjá veika bletti á hinni almennu röksemdafærslu í bókinnn verður aldrei of oft sagt að þegar á heildina er litið er bókin aldeilis prýðilegt framlag til pólitískrar umræðu. Það á ekki síst við um grein Slavojs Zizeks sem í anda bókarinnar almennt fjallar um hnattvæðinguna. Sérstaklega er ég sammála grunnhugsun hans um að "frelsunarferlið sjálft krefjist ástundunar frelsis" (bls.131). Á þessu byggðist grundvallarágreiningur marxista og anarkista á síðari hluta 19. aldarinnar og kom á daginn eftir reynsluna af hinni lenínisku byltingu í Rússlandi, að anarkistar höfðu mikið til síns máls. Ef þú þröngvar þjóðfélaginu með valdi að breyta sjálfu sér og styðst síðan við vald og lokaðar valdastofnanir við að smíða þjóðfélagsgerðina sem er ætlað að rúma frelsið, þá er lítil von til þess að samfélagið verði frjálst. Verkefnið er ekki að smíða kassa og stinga síðan frelsinu ofan í hann. Með öðrum orðum og mínum eigin: Frelsið byrjar ekki á morgun. Það byrjar í dag. Aðeins með lýðræðislegum vinnubrögðum verður lýðræði til.
Lengra í þessari hugsun virðist mér John Holloway kominn. Hann fær ekki æðri sess í bókinni en að komast að neðanmáls hjá George Monbiot. Hjá þeim síðarnefnda fær hann reyndar ekki háa einkunn en ég hef trú á því að ég deili með honum skoðunum , alla vega að hluta. Heitið á bók Holloways sem vitnað er í, er Changing the World Without Taking Power: The Meaning of Revolution Today. Ég ætla að titillinn sé ágæt vísbending um inntakið.

Veikleikinn hjá Zizek er hve akademískur hann er í framsetningu, þar sem hann notar tungutak sérfræðinga, langmenntaðra háskólamanna sem ræðast við sín í milli án vandræða en er hins vegar tjáningarmáti sem er takmarkandi fyrir fólk sem ekki er verserað í fræðunum, nokkuð sem hlýtur að teljast bagalegt þar sem sjálf lýðræðisbyltingin er annars vegar. Zizek virðist mér nokkuð fastheldinn á eina sýn – sem er að mínu mati jafnframt veikleiki sem kemur fram í fleiri greinum bókarinnar. Hann vill láta þróun eiga sér stað spontant. Hann hvetur okkur til að hætta að berjast fyrir afmörkuðum þáttum og jafnvel viðteknum gildum: “Að tími velferðarríkisins sé liðinn undir lok telst í dag til almennt viðtekinna sanninda (bls.136)… Eina leiðin til að leggja grunn að sannri , róttækri breytingu er ð draga sig til hlés, undan aðgerðaþörfinni, gera ekkert – og þannig opna rýmið fyrir annars lags aðgerðir (bls.135).”  Þýðir þetta að við eigum ekki að bregðast af alefli til varnar Landspítalanum þegar fjárframlög eru skorin niður til hans, eða elliheimilum, gegn einkavæðingu barnaskóla og komugjöldum á heilsugæslustöðvar? Eins og ég mun víkja að þykir Zizek ekki sjá möguleika sem kunna að bjóðast fyrir áhugamenn um "lýðræðisbyltinguna".

Ég er hins vegar mög sammála  Zizek í afstöðu til valdsins. Hann hræðist valdið. Eflaust hefur austurevrópskur kommúnismi í veganesti hans frá uppvextinum haft  sín áhrif á afstöðu hans í raunsæisátt..En þessi hræðsla við valdið í bland við fatalisma veldur því að hann leitast ekki við að benda á praktískar lausnir og úrræði. Um heimskapítalismann og alþjóðavæðingiuna segir Zizek: "Hnattrænn kapitalismi dagsins í dag er ekki lengur samræmanlegur lýðræðislegu umboði. Lykil-efnahagsákvarðanir stofnana á við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) eða Alþjóða viðskiptastofnunarinnar (WTO) eru ekki lengur löghelgaðar af neinu lýðræðislegu ferli, og þessi skortur á lýðræðislegu umboði er formbundinn, en ekki tilfallandi. Þess vegna er krafan um hnattrænt (fulltrúa)lýðræði (sem hefur verið sett fram í Þýskalandi af Habermas, Beck, Lafontaine og fleirum) sem myndi skikka IMF, WTO og svo framvegis  undir einhvers lags lýðræðislegt aðhald blekkjandi. Getur maður raunverulega svo mikið sem ímyndað sér heimskosningu til stjórnar IMF? Hér er við miklu meira en hina hefðbundnu umkvörtun um að þingræði sé ”formlegt” að stríða – hér er ekki einu sinni formið sjálft til staðar (bls.122).”  

Nú er ég tvímælalaust á þeirri skoðun að miklu róttækari breytingar þurfi að koma til sögunnar en einhvers konar aðhald gagnvart þessum stofnunum. Þær eru fyrst og fremst tæki heimskapítalismans og eiga ekki að hafa það frumkvæðisvald sem þær hafa. En ég hefði engu að síður haldið að okkur bæri að reyna að beisla þær eftir föngum og ef formið er ekki til staðar eins og Zizek kvartar yfir þá er viðfangsefnið að búa það til og einskorða sig þá ekki við hefðbundnar lausnir.

Má ekki hugsa sér önnur form en fulltrúalýðræði? Til dæmis mætti skoða þá tillögu PSI (Public Service International, Samtök starfsfólks í almannaþjónustu) um sérstakt þing; eins konar demókratískt aðhaldsþing, starfandi með Alþjóðaviðskiptastofnuninni til að tryggja mótvægi við fjármagnið, og hefði rétt til að opna umræðuna. (Sjá hér) Það er með ólíkindum hve langt WTO hefur til dæmis gengið í því að loka að sér. (Sjá hér) Er þetta ekki full hógvær krafa kynni einhver að segja, hvers vegna eigum við ekki að ráða í stað þess að veita fjármagninu aðhald. Sammála. En það er ekki komið að slíkum tímapunkti í mannskynsögunni, þess vegna má hugsa sér þessa aðferð við núverandi aðstæður til að beina ákvarðanatöku inn í farveg sem er þó opnari og lýðræðislegri en gerist nú. Þannig eigum við að huga – ekki í svarthvítu heldur með tilliti til aðstæðna. Að sjálfsögðu þurfum við að hafa hugmyndir okkar og framtíðarsýn skýra en við verðum jafnframt að taka mið af aðstæðum eins og þær birtast okkur núna – til dæmis, hvaða ákvörðun verður tekin um húsaleigubætur fyrir tekjulága – núna. Það liggur nefnilega á.

Þessum augum lít ég einnig á tilvist þjóðríkisins. Ég sé það sem lýðræðislegt tæki – sem ekki má láta fara forgörðum.

Auk fjölbreytileikakenningarinnar, sem bókinni tókst ekki að hrekja mig frá, tel ég lýðræðislega varnar- og sóknarmöguleika felast í því að varðveita öll þau tæki sem við höfum, hvort sem það eru sveitarfélög eða þjóðríki. (Í grein sem ég birti hér á síðunni 22. október árið 2002 þar sem ég fjallaði um fjölþjóðlega ráðstefnu sem þá var haldin í Háskóla Íslands vék ég að örlagahyggjunni og einnig að þjóðríkinu og hlutverki þess. Sjá hér)

Og ég spyr er það rétt sem Manbiot segir að þjóðríkið spilli fyrir frelsandi aljþóðahyggju: "Alþjóðahyggja ef hún merkir eitthvað , hlýtur að fela í sér samspil á milli þjóða. Hnattvæðingin gefur til kynna samspil sem nær út fyrir þjóðir, án milligöngu ríkisins. Það er t. a.m. þjóðríkin  - óháð því hversu kúgandi, óábyrg þau kunna að vera  - taka einungis til greina þau hagsmunamál borgaranna sem þau eru sjálf tibúin að ræða. Þjóðríkið gegnir hlutverki þröskuldar á milli okkar og stofnunarinnar sem ætlast er til að takast á við mörg af þeim vandamálum sem þau snerta. Vandi SÞ er að hnattræn stjórnmál hafa verið hertekin af þjóðríkjunum ; að hnattvæðingin hefur m.ö.o. þurft að víkja fyrir alþjóðahyggjunni (bls.103)." En bíðum við, hvernigt er þetta í raun?  Er það ekki þannig að í nánst öllum atkvæðagreiðslum á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að yfirgnæfandi meirihluti þjóðríkjanna er nánast alltaf fylgjandi þeim sjónarmiðum sem George Monbiot boðar? Nýlegt dæmi er Írak stríðið. Meirihlutinn innan SÞ  - hvort sem er með tilliti til fólksfjölda eða þjóðríkja - var andvígur hernaðarárás Bandaríkjamanna og Breta. Í nóvember 1998 voru greidd atkvæði um það hvort viðskiptabannið á Írak væri réttmætt. Spurt var hvort réttælatnlegt væri að beita þvingunaraðgerðum gegn þjóð ef sú aðgerð stríddi gegn Stofnsáttmála SÞ og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Allir vissu að málið snerist um Írak. 104 þjóðríki greiddu atkvæði með tillögunni, 10 sátu hjá en 41 voru á móti (sjá nánar hér). Nú efast ég ekki um að hægt er að koma á lýðræðislegri skipan innan Sameinuðu þjóðanna en við búum við nú og tel ég það mjög brýnt. Sá aðili sem ræður er Öryggisráðið; ráð sem Bandaríkin hafa í hendi sér. Ég bið og vona að Ísland fái aldrei þar sæti á meðan núverandi stjórnarherrar eru við völd, eins undirgefnir þeir eru Bandaríkjastjórn og raun ber vitni – en það er önnur saga.

Í bókinni Af Okkur eru margar skemmtilegar greinar, ljóð og myndir og ljóst að þarna fara miklir eldhugar. Ljóðin eru bæði eftir erlenda og innlenda höfunda: D. R. Haney,sem Eiríkur Örn Norðdahl þýðir, Allen Ginsberg, einnig í þýðingu Eiríks Arnar og ljóðið Leiðrétting eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur. Myndverk eru eftir Gauthier Hubert og Hugleik Dagsson.

Í bókinni úir og grúir af nýhugsun og skarpri þjóðfélagsgagnrýni. Þannig segir Steinar Bragi að frjálshyggjumenn séu ”trúfífl” sem glati sjálfum sér í hugmyndafræði sem sé stærri en hver einstakur maður eða aðstæður þrátt fyrir að þessi hugmyndafræði fjalli um einstaklinga: ”Friedman sér ekki skóginn fyrir trjánum, Stalín sá ekki trén fyrir skóginum – hver er munurin? – en ólíkt einræðisríkjunum er valdbeiting frjálshyggjunnar á breiðum lýðræðislegum grundvelli og vald sem, á yfirborðinu, er sótt í slíkan útsmurning finnur aldrei sökudólga, vekur ekki knýjandi sektarkennd eða skömm; lýðræðislegar aftökur innan og utan múranna geta valdið ónotum yfir fréttatímum en ekkert okkar verður ákært fyrir morð, forstjórar fyrirtækja verða ekki ákærðir fyrir glæpi gegn mannkyni - þeir eru í versta falli ákærðir fyrir brot á samkeppninslögum ...”

Hildur Fjóla Antonsdóttir skrifar afar fróðlega grein um andóf kvenna í Nígeríu gegn bandaríska olíurisanum Chevron. Hildur Fjóla sýnir fram á það hvernig hnattræn fjármagsöfl leiki fátæk þjóðfélög og komi ”það kapítalíska óskipulag sem einkennir hnattvæðinguna illa niður á þeim sem hafa ekki burði til að taka þátt á eigin forsendu, þá sérstaklega þeim hópum fólks sem hafa sögulega átt undir högg að sækja í hinni vestrænu karllægu heimsskipan (bls.74).” Þannig sé hnattvæðingin ”ekki kynhlutlaust hugatak (bls.68)”

Halldór Bjarki Christensen skrifar einnig mjög upplýsandi grein þar sem tekip er fyrir dæmi úr raunveruleikanum um það hvernig alþjóðafjármagnið leikur fátækar þjóðir. Hann leitar fanga í Mosambík en kemur víða við og sýnir fram á tvískinnunginn hjá ríku iðnríkjunum og hvernig þau hygli þeim sem passar hverju sinni en troði á hinum. Hann tekur dæmi af fundi leiðtoga átta stærstu iðnríkja heims frá 14. júní sl. þar sem þeir ákváðu að ”veita 90 milljörðum bandaríkjadala til þess að fella niður erlendar skuldir Íraks, en auka um leið loforð um framlög til þess að fella niður skuldir þróunarlanda um aðeins einn milljarð ...(bls.85)”.

Það er mikilvægt að örva umræðu um hugmyndir og pólitík. Nýhil útgáfan gerir það svo sannarlega með útgáfu bókarinnar Af okkur. Ég staldraði ögn við þau ummæli  Zizeks í bókinni að ef nokkurn lærdóm megi draga af hugmyndasögunni, ”frá kristninni til Marx og Heideggers, þá er það að rætur rangrar viðtöku liggja hjá upphaflega hugsuðinum sjálfum (bls.110).”

Það er gott og blessað að gera kröfur til hugmyndasmiða en fyrst og síðast á að gera köfur til okkar allra, til okkar sjálfra, hvers og eins. Viðfangsefnið er að gera úr okkur sem flestum áhugafólk um þjóðfélagsmál, sem sjálft varpar fram hugmyndum, jafnframt því að taka við  hugmyndum annarra. Það verðum við alltaf að gera  á gagnrýninn hátt. Mannkynssagan kennir nefnilega að besta vörnin gegn ógagnrýninni fylgispekt við ”hin réttu hugmyndakerfi” er að örva sem flest fólk til sjálfstæðrar hugsunar.