Fara í efni

Að gerast pensill hjá listmálara


Fyrir stuttu síðan hlotnaðist mér sá heiður að fá að taka þátt í listsköpun Önnu Hrefnudóttur, myndlistarkonu. Henni hugkvæmdist nefnilega að leita til nokkurra einstaklinga af mismunandi árgerðum og upplagi, og fá þá til mála með sér á striga – óundirbúið og impúlsíft. Í öllum tilvikum gerist þetta í fjöru, í mínu tilviki í Sundskálavör í Skerjafirði. Heimilt er að nota fjörusandinn í verkið, sem ég reyndar gerði óspart. Þess má geta að í Sundskálavör lærðu unglingar á Grímsstaðaholtinu – þar á meðal móðir mín og systkini hennar, sem ólust upp í Hólabrekku, sem stendur skáhalt á móti Hjónagörðunum við Suðurgötu -  að synda á fyrri hluta síðustu aldar og gott ef það var ekki þar sem Þórbergur Þórðarson tók sundböð sín á sínum tíma. Ég fór að sjálfsögðu í sjóinn að loknu þessu ævintýri.
En til að botna þessa frásögn, þá fékk ég hægri hluta strigans til ráðstöfunar en listakonan hinn vinstri hluta. Að þessu loknu tók hún myndina heim í vinnustofu sína og fór um hana höndum. Og viti menn að úr klessunum mínum kveikti hún líf! Okkur birtist dulúðug kona sem ekki hafði verið mér sýnileg þegar við skildum í Sundskálavör.

Annars hvet ég alla til að fara inn á heimasíðu Önnu Hrefnudóttur og kynna sér fjölbreytt efni sem þar er að finna.