Fara í efni

Björgólfur og Bandaríkin lýsa áhyggjum

Birtist í Fréttablaðinu 12.11.2003
Í sunnudagsútgáfu Fréttablaðsins  var mjög athyglisverð grein um Búlgaríu og afskipti "okkar" manna af málum þar. Í samantekt blaðamanns af eigin frásögn kom eftirfarandi fram: " Björgólfur Thor Björgólfsson lýsir þungum áhyggjum erlendra fjárfesta af hægfara einkavæðingarferli í Búlgaríu. Hann flutti framsögu á ráðstefnu helstu áhrifamanna í búlgörsku viðskiptalífi. Sjónarmiðin hafa vakið athygli búlgarskra fjölmiðla. Kaup hans og annarra á búlgarska landssímanum eru í pólitískum hnút."

Í meginmáli frásagnarinnar kom fram að Björgólfur Thor hafi átt fund með "æðstu ráðamönnum í Búlgaríu til að freista þess að höggva á hnútinn".

Áhyggjur Björgólfs Thors lúta að því hve hægt gengur að einkavæða í Búlgaríu og að það skuli vefjast fyrir búlgörskum stjórnvöldum að einakvæða símakerfið. Þannig mun málum háttað að nokkrir stórir fjárfestar, undir forystu bandarísks fjárfestingafyrirtækis, hafa boðið 25 milljarða í 65% búlgarska símans. Stærsta fyrirtækið í þessum hópi fjárfesta heitir Advent International en næststærsti fjárfestirinn í hópnum er samkvæmt því sem Fréttablaðið greinir frá í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar.

Einkavæðið eða...

Og nú er staðan semsagt þessi, að vöflur eru komnar á búlgörsku ríkisstjórnina. Búlgarir hafa að sjálfsögðu komið sér upp einkavæðingarenfnd, í takt við tískuna, en nefndinni hefur nú verið sagt að doka ögn við því málið sé "viðkvæmt".

Það er ekki að undra að Björgólur Thor sé áhyggjufullur og sýnilega er farið að þykkna í Bandaríkjamönnum. Fréttablaðið greinir svo frá: "Bandaríski sendiherrann hefur lýst því yfir að verði tilboði alþjóðlegu fjárfestanna ekki tekið, stefni það viðskiptasamböndum Bandaríkjamanna og Búlgaríu í hættu".

Eitt sýnist mér Björgólfur Thor og Bandaríkjamenn geta bundið vonir við og það er að "æðsti dómstóll Búlgaríu hefur skorið úr um að búlgarska ríkið skuli ganga að tilboði alþjóðlegu fjárfestanna." Það hlýtur að vera huggun harmi gegn að vita að dómstólar í Búlgaríu skuli farnir að skilgreina réttlætið í þágu erlendra fjárfesta, sem krefjast aðgangs að fjárfestingum í samfélagsþjónustunni í landinu.

Íslendingar hafa þegar haslað sér völl í lyfjaiðnaði í Búlgaríu. Þar skilst mér að grundvöllurinn hafi verið lyfjafyrirtæki búlgarska ríkisins. Og nú vilja menn meira. Ég leyfi mér að varpa fram þeirri spurningu hvort ekki sé hér nokkuð langt gengið. Hvort ekki sé rétt að tala um þetta sem yfirgang og að haft sé í hótunum við fátæka þjóð? Hvort hér sé ekki á ferðinni vald sem svo ágætlega hefur verið kallað auðvald?

Ef þetta værum við?

Hvað fyndist okkur um svona framkomu í okkar garð?Hvað fyndist okkur ef erlendir auðmenn skömmuðust út í íslensk stjórnvöld fyrir að afhenda þeim ekki eignir okkar, að ekki sé minnst á ef þetta gerðist við aðstæður þegar Íslendingar ættu í efnahagsþrengingum? Í Búlgaríu verður ríkisstjórnin að "undirrita stóra einkavæðingarsamninga" er haft eftir Björgólfi Thor Björgólfssyni og talar greinilega eins og sá sem valdið hefur. Hvað fyndist okkur að hlusta á svona tal ef það værum við sem ættum í hlut? Og hvað fyndist okkur ef bandaríska sendiðráðið á Íslandi sendi íslenskri ríkisstjórn tóninn ef hún gengi ekki erinda bandarískra stórfyrirtækja?

Allt væri þetta að sjálfsögðu réttlætt með skírskotun til þess að svo miklir afburðamenn og frumkvöðlar væru á ferð, reiðubúnir að fórna sér fyrir okkur, að það hlyti að teljast mikið ábyrgðarleysi að afhenda þeim ekki eignir þjóðarinnar til forvöltunar. Þetta er alla vega þeirra eigin formúlering í Búlgarú.

" Ég er frumkvöðull í eðli mínu", segir Björgólfur Thor Björgólfsson. Nú má vel vera að handhafar milljarðanna 26 sem vilja eignast símann í Búlagaríu séu miklir frumkvöðlar og hæfileikamenn. Alla vega virðast þeir hafa einhver tök á því að ná sér í, að því er virðist ótakmarkað fjármagn. Mér finnst hins vegar vert að velta því fyrir sér hvernig á því standi að allir þessir miklu frumkvöðlar skuli ekki gera eitthvað nýtt í stað þess að reyna að koma eignarhaldi yfir starfsemi sem þegar hefur verið sköpuð. Hvers vegna sýna þessir miklu frumkvöðlar ekki hvað í þeim býr með því að skapa eitthvað nýtt?