Fara í efni

Vöndum val á vinum

Án efa er oft úr vöndu að ráða fyrir forseta Íslands þegar gestir sækja okkur heim eða þegar þjóðhöfðinginn þiggur heimboð annarra. Varla ræður hann þá dagskránni. Ég get mér þó til að hann geti að einhverju leyti haft áhrif, t.d. hvort þegið skuli boð um að ferðast í einkaþotu frá Rússlandi til Englands til að horfa á fótboltaleik með Roman Abramovits, landstjóranum í Chukotska í Rússlandi og eiganda fótboltaklúbbsins Chelsea. Í fréttafrásögnum af heimsókn Ólafs Ragnars Grímssonar til Chukotska fengum við að heyra að forseti Íslands hefði séð “glæsilegar skólabyggingar sem hann [Abramovits] hefur fjármagnað af eigin fé í þágu fólksins sem hér býr”.

Hvaðan koma peningar hins gjafmilda manns?

En hvaðan skyldi Roman Abramovits hafa auð sinn? Í sumar flutti Morgunblaðið okkur fréttaskýringu um “hægláta milljarðamæringinn” (Morgunbl. 14.júlí). Þar kom fram að þessi 36 ára Rússi hefði ekkert haft handa á milli þar til árið 1992. Þá “fóru hjólin  að snúast”. Nú reiknist mönnum til að hann eigi rúma 440 milljarða króna. Reyndar 700 milljónum betur. Abramovits hafði verið einn af aðstoðarmönnum Berezovskys en hann var einn af svokölluðum Oligörkum eða viðskiptahöldum sem auðguðust stórkostlega á Jeltsin - tímanum með því að komast yfir fyrrum ríkisfyrirtæki.
Gefum Morgunblaðinu orðið: “ Eftir að Vladimir Pútín komst til valda árið 2000 tók Abramovits yfir eignir Berezovskys í olíu- og fjölmiðlaiðnaðinum , enda lenti Berezovsky í ónáð hjá Pútín og hrökklaðist úr landi og býr nú í sjálfskipaðri útlegð í London. Abromovits eignaðist olíufyrirtækið Sibneft,  fimmta stærsta olíufyrirtæki Rússlands, árið 1996 og hann á 50% af Russal  sem hefur einokunarstöðu á álmarkaði. Þá átti hann þar til nýlega 26% af rússneska flugfélaginu Airoflot, en hefur nú selt allan hlut sinn í félaginu og segja menn að hagnaðurinn af sölunni hafi verið notaður til kaupa á Chelsea.”

Tilraun hjá  Abramovits

Síðar í Morgunblaðsgreininni er vísað í umfjöllun erlendra fjölmiðlamanna sem velta því fyrir sér hvernig megi skýra áhuga Abramovits á hinu harðbýla Chukotska héraði. Þeir benda á að þetta sé hluti af mynstri sem fram hafi komið hjá auðjöfrum þar í landi. “Landstjórar hafi mjög mikil völd, þeir ráði til dæmis hvernig náttúrulegar auðlindir svæðanna eru nýttar og eru fleiri dæmi um að efnamiklir og áhrifaríkir menn í iðnaði hafi tekið við stjórnartaumunum á ýmsum landsvæðum. Í Time spyr blaðamaður sig hvers vegna Abromovits láti svo mikið fé í frosið og fámennt hérað, og skyldi engan furða. Er haft eftir Anatoly Tsjúbajds, starfsmannastjóra Boris Jeltsin , fyrrverandi forseta landsins, að Abramovits sé líklega áhrifamestur ungra auðjöfra í Rússlandi. Chukotska sé gæluverkefni hans en gagnrýnendur hans segja að hann vilji stjórna öllum auðlindum héraðsins og hugsanlega nota Chukotska sem stökkpall til áhrifa í Moskvu. Sjálfur segir Abromovits að þetta sé eins konar tilraun hjá sér.”Ég hef aldrei stjórnað landsvæði. Ég hef aldrei talað opinberlega við fólk. Ég verð að prófa það til að vita hvort það eigi við mig,” er haft eftir honum í Time.”

Í félagi við Berlusconi

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er Roman Abramovits 19. ríkasti maður Evrópu. Grun hef ég um að á þessum lista séu ekki upp til hópa mestu móralistar álfunnar. Í 18. sæti listans mun vera Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, sem notar þinghelgi til að flýja réttvísina og lætur breyta lögum til að forða eigin skinni, gerist þess þörf. Gulnora Karimova er ekki á Evrópulistanum því hún er frá Asíu, nánar tiltekið Uzbekistan. Gulnora er dóttir forsetans þar í landi og segir frá henni í Financial Times fyrir fáeinum dögum (19. ágúst). Þessi kona hefur safnað til sín miklum auði og segir Financial Times að hún hafi flutt jafnvirði milljóna dollara út fyrir landsteinana. Ekki upplýsir blaðið hvort hún hafi keypt sér fótboltalið. Hún er hins vegar enn eitt dæmið um stórefnafólk sem fór ránshendi um samfélagið við fall Sovétríkjanna. Þetta fólk stal bókstaflega öllu steini léttara hvar sem því var komið við.
Síðan líða nokkur ár. Menn gerast góðgjarnir, gefa skóla hér og þar “af eigin fé” og bjóða mönnum á völlinn.

Traustur vinur

Hvernig þetta fólk komst upp með þetta verður viðfangsefni sagnfræðinga framtíðarinnar og þá sérstaklega sérfræðinga í glæpasögu. Til að skýra velgengni hennar Gulnoru í Uzbekistan mun þurfa að skyggnast víða og án efa verður grafið upp að pabbi gamli, hann Roman Karimov, hafi vitað lengra sínu nefi. Hann reyndist nefnilega  staðfastur vinur vina sinna og er einn alharðasti andstæðingur hryðjuverkamanna í heiminum. Þess vegna lét Karimov forseti, Bandaríkjaher eftir flugvöll í suðurhluta Uzbekistan fyrir árásarflaugar á Afganistan. Ég er sannfærður um að þetta hefur ekki spillt fyrir Gulnoru.