Fara í efni

Menningin blómstrar í Munaðarnesi

Um helgina var opnuð sýning á verkum Önnu Gunnlaugsdóttur myndlistarkonu í orlofsbyggðum BSRB í Munaðarnesi. Í tengslum við opnunina var að venju efnt til Menningarhátíðar. Þótt að sönnu megi segja að menningin blómstri í Munaðarnesi sumarlangt  því salarkynni þar verða prýdd verkum Önnu fram á haust þá er sú Mennnigarhátíð sem efnt var til við opnunina ekki löng en svo mögnuð að við hjá BSRB treystum okkur til að skrifa hana með stórum staf. Sigrún Hjálmtýsdóttir sópransöngkona – Diddú – söng við undirleik Jónasar Ingimundarsonar píanóleikara. Húsfyllir var að sjálfsögðu og hreif Diddu alla viðstadda og Jónas Ingimundarson fór á kostum í tali og tónum. Pétur Gunnarsson rithöfundur ávarpaði gesti og las upp úr verkum sínum bæði í bundnu máli og óbundnu. Var gerður sérlega góður rómur að. Myndir Önnu Gunnlaugsdóttur  á sýningunni eru andlitsmyndir kvenna. Ég virti fyrir mér gestina á opnunarhátíðinni í Munaðarnesi horfast í augu við konurnar hennar Önnu og sá ég ekki betur en vel færi á með þeim. Innan BSRB er áhugi á því að leggja rækt við listina og við erum stolt að því að hafa fengið fólk úr framvarðarsveit íslenskra listamanna til að koma fram á Menningarhátíðum bandalagsins í Munaðarnesi.