Fara í efni

Ánægja með viðbrögð

Þegar ég opnaði þessa heimasíðu fyrir fáeinum vikum hefði mig aldrei órað fyrir hve viðbrögðin yrðu jákvæð. Í fyrsta lagi kemur í ljós að mikill fjöldi fólks fylgist með síðunni. Í öðru lagi er hún að verða kröftugur umræðugrundvöllur. Lesendabréf streyma inn á síðuna stríðum straumi og að mínum dómi eru þau mjög áhugaverð og sum og reyndar flest sérstaklega vel skrifuð og kveikja í mönnum og hvetja þannig til frekari umræðu. Þá er til sögunnar kominn sérstakur dálkur um fjölmiðla þar sem frjálsir pennar láta til sín taka.

Séra Gunnar Kristjánsson á Reynivöllum ríður á vaðið og sannast sagna er ég mjög stoltur af því að sá mæti maður skuli reiðubúinn að leggja orð í belg á síðunni. Eins og rækilega er áréttað er framlag í þessum dálki ekki af neinum pólitískum toga þótt ég hafi að sjálfsögðu fyrst og fremst leitað  til manna sem mér finnst hafa sýnt að þeir búi yfir gagnrýnni og frjórri hugsun. Séra Gunnar Kristjánsson á Reynivöllum var einn kröftugasti talsmaður Friðarhreyfingarinnar (sem var svo afgerandi að ég skrifa hana með stórum staf) á fyrri hluta níunda áratugarins og tvímælalaust einn merkasti kennimaður innan kirkjunnar í okkar samtíð. Pistill Gunnars Kristjánssonar hefur staðið í nokkara daga enda þolir hann biðina og þess vert að teyga úr honum safann. Framvegis mun líða skemmri tími á milli pistla um þetta efni. En lífið er fjölbreytt. Þannig sá Ólína sem er að hasla sér völl sem áhugaverður skríbent á lesendasíðunni allt annan flöt á fátækraumræðu forsetans en flestir aðrir. Sannast sagna fannst mér hann mjög umhugsunarverður þótt mér þætti óneitanlega gott að Ólafur Ragnar setti fátæktina á dagskrá. Við þekkjum flest ræðu Ólafs Ragnars, ég hvet lesendur einnig til að fletta upp í viðhorfum Ólínu. Þau er að finna undir liðnum spurt og svarað. Ólína er að vísu ekkert sérstaklega að spyrja, hún er aðallega að svara. Það er líka ágætt. Kæru vinir, gleðilegt ár.